Vatnið er skínandi blátt en það eru blikur á lofti


IMGP1982 copy.jpgUmferð um Mosfellsheiði fyrstu 90 daga ársins er 85% meiri en hún var á sama tíma í fyrra samkvæmt nýjum upplýsingum sem Vegagerðin tók saman fyrir Þingvallanefnd.  Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður á Þingvöllum greindi frá þessu á málþingi um ástand Þingvallavatns sem fram fór í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni í Reykjavík miðvikudaginn 3.apríl. Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands stóðu að málþinginu sem var vel sótt. 

Ólafur Örn ítrekaði einnig að verndun og vöktun Þingvallavatns væri eitt brýnasta verkefni í náttúrvernd á Íslandi. Sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar verði allir að leggjast á eitt um að vernda vatnið. Einnig benti hann á að miklar breytingar hefðu orðið í og við vatnið á undanförnum árum. Affallið hafi verið virkjað, afrennsli frá háhitavirkjunum renni í vatnið, umferð hafi margfaldast, meðalhiti lofts og vatns aukist, meira frárennsli bærist frá sumarhúsum og ferðamennsku og þá hafi barrskógar stækkað. Þá nefndi hann ágang veiðimanna, þeirra verstir væru þeir sem kæmu með ýmsa beitu, s.s. makríl og hrogn af óþekktum uppruna.

raedumenn.jpgMest fjallaði Ólafur Örn þó umferðina sem hefur stóraukist frá því nýr vegur um Lyngdalsheiði var tekinn í notkun árið 2010. Vegurinn leysti Gjábakkaveg af hólmi. Árið 2000 fóru 550 bílar að meðaltali um Gjábakkaveg á dag, þeir voru orðnir 740 árið 2007 en árið 2012 - á nýjum vegi - var meðalumferðin á dag 1074 bílar.Það sem af er þessu ári hefur umferðin verið þyngri en í fyrra og aldrei verið meiri og fjölgunin milli ára ótrúleg. Umferð hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár en mengun frá umferð er talin ein af ástæðum fyrir minnkandi tærleika Þingvallavatns.

petur.jpgFimm erindi voru haldin en heiðursgestur málþingsins Pétur M. Jónasson prófessor í vatnalíffræði var heiðraður fyrir hugsjónir sínar og ástríðu fyrir náttúru Þingvallasvæðins og fyrir að hafa stýrt rannsóknum á svæðinu undanfarin 40 ár.   Hann hélt einnig erindi þar sem hann fór yfir rannsóknir sínar og upplifun af Þingvallasvæðinu. Guðrún Ásmundsdóttir leikkona fjallaði um upplifun sína af Þingvöllum í gegnum tíðina og var flutningur hennar studdur fallegu óbó-millispili Eydísar Franzdóttur.Hilmar Malmquist flutti erindi um vöktun Þingvallavatns og þær niðurstöður sem fengist hafa.  Sigrún Helgadóttir líffræðingur og höfundur bókarinnar Þingvellir flutti erindi um stjórnun og sögu þjóðgarðsins á Þingvöllum.  Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari var með skemmtilegt innlegg um mannlíf við Þingvallavatn á 20.öld sem hún kallaði Af vatni og fólki og að lokum fór Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur yfir jarðfræði Þingvallasvæðins og dró fram sérkenni svæðisins sem eru mörg einsog flestir þekkja.

Tilgangur málþingsins var að draga fram ástand Þingvallavatns og tókst það vel en ljóst er að breytingar eru að verða á vissum efnaþáttum og hitastigi vatnsins. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum verður í fararbroddi með þeim sem vinna að verndun Þingvallavatns  en Þingvallanefnd setti fram bókun um ástand Þingvallavatns í kjölfar kynningar Hilmars Malmquist líffræðings fyrir Þingvallanefnd á fundi hennar 3. desember 2012.

Stefnt er að því að að Þingvallavatn ásamt vatnasviði verði sett á heimsminjaskrá sem einstakar náttúruminjar á heimsvísu í framtíðinni.Um Þjóðgarðinn
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.
Þingstaðaverkefnið
Þingstaðaverkefnið samstarfsverkefni 8 aðila sem miðar af því að draga fram sögu fornra þingstaða.
Heimsminjaskrá
Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna 2.júlí 2004 á fundi heimsminjaráðsins sem haldinn var í Suzhou í Kína.
Þjónusta
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður 1930. Í dag eru Þingvellir einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins en um 500.000 gestir heimsækja Þingvelli árlega.