Fornleifaskráning í fyrstu fimmtudagskvöldgöngu

Fimmtudagskvöldgöngurnar vinsælu hefjast í þjóðgarðinum á Þingvöllum í kvöld 5.júní.  Þá fjalla Margrét Hallmundsdóttir fornleifafræðingur og Einar Á.E.Sæmundsen fræðslufulltrúi þjóðgarðsins um fornleifaskráningu innan þjóðgarðsins á Þingvöllum sem staðið hefur yfir undanfarin ár.  Fornleifaskráningin nær yfir allann þjóðgarðinn en flestir tengja fornleifar í þjóðgarðinum eingöngu við þingstaðinn forna.  Í upphafi gönguferðarinnar verður stutt kynning í gestastofunni á Hakinu þar sem farið verður yfir hvaða svæði hafa verið skoðuð og fjallað um mismunandi minjar sem hafa komið í ljós.  Í gönguferðinni verður fjallað um fyrri rannsóknir og skráningar á Þingvöllum og bent á ýmsar skemmtilegar og sérstakar minjar t.d. víghreiður frá tímum seinni heimstyrjöldar, eldri gönguleiðina um Almannagjá, vegghleðslur og búðir og aðrar minjar í kringum Lögberg og á Spönginni ásamt því að fjalla um Öxará og flutning hennar niður á vellina.

snorrabud.jpg
Margir góðar fyrirlesarar munu leiða gönguferðirnar síðar í sumar og fjalla um ólíkar hliðar Þingvalla.

Þann 12.júní fjallar Þór Jakobsson veðurfræðingur um lýðveldishátíðina 1944 og minningar núlifandi Íslendinga um þennan merka dag í sögu Íslands.

19. júní fjallar Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor í jarðvísindadeild Háskólans Íslands um sjálfbærni, umhverfisvernd og hlutverk þjóðgarða.

Fagur himinhringur er titill gönguferðar 26.júní þegar Gerður Kristný rithöfundur leiðir gesti um Þingvelli.

Notkun Íslendinga á áfengum drykkjum í Almannagjá í gegnum aldirnar verður viðfangsefni Bjarka Bjarnasonar sagnfræðings þann 3.júlí.

Stefán Pálsson sagnfræðingur mun fjalla um Þingvelli og pólitísk mótmæli á 20.öld í fyrirlestri sínum þann 10.júlí. Umfjöllun um Njálssögu er vinsælt umfjöllunarefni í fimmtudagskvöldgöngum og þann 17.júlí mun Sigurður Hróarsson forstöðumaður Njálusetursins á Hvolsvelli fara um Njáluslóð á Þingvöllum og reifa helstu viðburði sem gerast á Þingvöllum í Njálu.

Að lokum mun Gunnar Karlsson sagnfræðingur og prófessor fjalla um ástir á Þingvöllum og afleiðingar hennar í fyrirlestri sínum 24.júlí og taka til umfjöllunar ástarmál úr þekktum Íslendingasögum sem hafa gerst á Þingvöllum.

Gönguferðirnar hefjast alltaf við gestastofuna á Hakinu kl.20.00 á fimmtudagskvöldum og eru allir velkomnir.

Um Þjóðgarðinn
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.
Þingstaðaverkefnið
Þingstaðaverkefnið samstarfsverkefni 8 aðila sem miðar af því að draga fram sögu fornra þingstaða.
Heimsminjaskrá
Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna 2.júlí 2004 á fundi heimsminjaráðsins sem haldinn var í Suzhou í Kína.
Þjónusta
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður 1930. Í dag eru Þingvellir einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins en um 500.000 gestir heimsækja Þingvelli árlega.