Veðrið á Þingvöllum -8,7°C SV 1 m/s.

Fræðsludagskrá

Í sumar verður fræðsla í þjóðgarðinum á Þingvöllum einkum um helgar. Stefnt er að lengri fræðslugöngu alla laugardaga milli 13:00-16:00 þar sem gengið verður inn í hraunið í sigdalnum. Laugardaga og sunnudaga verður boðið upp á skemmri fræðslugöngur í sjálfri þinghelginni.

13. júní Eyðibýlaganga - Hvað býr í hrauninu 
Í fyrstu fræðslugöngu landvarða í sumar liggur leiðin inn að hraunbýlunum í sigdalnum. Eva Dögg Einarsdóttir margreyndur landvörður þjóðgarðsins fer með gesti inn að Hrauntúni og Skógarkoti. Á leiðinni fræðast gestir um náttúru & sögu svæðisins sem er um margt ólík þeirri stjórnvalds- og hetjusögu sem sögð er af Þingvöllum.
Gangan hefst klukkan 13:00.
Lagt af stað frá Þjónustumiðstöðinni á Leirum þar sem tjaldstæðið er.

20. júní Eyðibýlin í Þingvallahrauni
Hraunið geymir ýmislegt og m.a. hraunbýlin Hrauntún og Skógarkot sem lögðust í eyði við stofnun þjóðgarðs 1930. Sigurlaug Jónsdóttir  landvörður gengur með gestum og fræðir um sögu býlanna og fagra náttúru hraunsins.
Gangan hefst klukkan 13:00.
Lagt af stað frá Þjónustumiðstöðinni á Leirum þar sem tjaldstæðið er.

25. júní Blómin í Almannagjá
Vel flest þekkjum við gráa hamraveggi Almannagjáar, snyrtilegan Þingvallabæinn og nið Öxarár. Hvert sumar má þó einnig upplifa hið smáa í fögrum lággróðrinum og litríkum blómum.
Jóna Kolbrún Sigurjónsdóttir mun leið gesti og gangandi um Almannagjá og heim að Þingvallakirkju. Umræðuefnið verður gróður í þinghelginni, fegurð hans og nýting til forna.

Gangan hefst við gestastofuna á Haki ofan Almannagjár klukkan 20:00 og tekur rétt rúman klukkutíma.

27. júní Lífið við Vatnsbakkann

Gangan hefst við Vatnskot en þaðan er farið austur að Vellankötlu eftir norðurbakka Þingvallvatns. Þá liggur leiðin upp að Skógarkoti og hringurinn kláraður niður í Vatnskot.
Létt gönguleið en gæti orðið ögn blaut á köflum. 
Hér gefur á að líta margt skemmtilegt enda iðar vatnsbakkinn af lífi, hvort sem er gróður eða dýralalíf. Þingvallavatn hefur í gegnum tíðina verið gjöfult veiðivatn og þar með styrkt búsetumöguleika á annars harðbýlu svæði. 

Reglulegar fréttir koma fyrir á fésbókarsíðu þjóðgarðsins:
https://www.facebook.com/thingvellirnationalpark/