Veðrið á Þingvöllum 5,4°C S 6 m/s.

Þingvellir á Þjóðminjasafni

Laugardaginn 15. febrúar verður haldið málþing í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafn Íslands þar sem fjallað verður um skráningarvinnu í tengslum við fornleifar á Þingvöllum.
Komið verður inn á notkun nýrrar tækni við vinnslu á útlínum búðatófta og fornleifaskráningu. Þá verður fjallað um nauðsyn minjaskráningar og hvernig notkun landupplýsingakerfa og vefsjáa nýtist til miðlunar fyrir fræði- og leikmenn til að nálgast upplýsingar um þjóðgarðinn.

Staðsetning: Fyrirlestrarsalur Þjóðminjasafn Íslands, Suðurgötu 41.

Dagskrá
13:00 – 13:10 Málþing opnun.
Einar Á.E.Sæmundsen þjóðgarðsvörður á Þingvöllum

13:10 – 13:50 „Hvað höfum við gert?“ – Fornleifaskráning á Þingvöllum
Margrét Hrönn Hallmundardóttir fornleifafræðingur

13:50 – 14:30 „Eyðibyggðin á Þingvöllum“
Gunnar Grímsson nemi í fornleifafræði

14:30 – 14:50 „Mögulegar fornleifar neðanvatns á Þingvöllum“
Kevin Martin neðansjávarfornleifafræðingur

14:50 - 15:10 „Örnefnaskráning í þjóðgarðinum“
Einar Á. E. Sæmundsen

Kaffi og kleinur til staðar

Haustið 2019 var haldið samskonar málþing um þá umfangsmiklu fornleifaskráningu sem átt hefur sér stað innan marka þjóðgarðsins.

Vinnunni hefur verið að stýrt af Margréti Hrönn Hallmundsdóttur fornleifafræðingi. Farið hefur verið yfir helstu mannvistarsvæði í þjóðgarðinum allt frá þingstaðnum forna yfir í Þingvallahraun og flest þekkt mannvistarsvæði verið skráð. Við fornleifaskráninguna hefur ýmsum aðferðum verið beitt við að skrá og staðsetja minjar en jafnframt hefur tækninni fleygt fram. Notkun dróna hefur aukið yfirsýn og afköst í fornleifaskráningu með nákvæmari loftmyndum, notkun hitamyndavéla og gerð þrívíddarlíkana.

Í þinghelginni hafa komið í ljós fleiri minjar en áður hafa verið skráðar. Meðal annars hefur fengist staðfest að 30 metra löng rúst, ásamt fleiri húsum í kring, er að finna á Miðmundartúni sunnan við Þingvallabæinn. Borkjarnarannsókn í Miðmundartúni og tilraunir með nýjum búnaði við fjarkönnun á svæðinu gafst mjög vel og staðfestu útlínur byggingar. Talið er líklegt að um sé að ræða stóran skála, líklega meðal elstu minja um búsetu á Þingvöllum.
Fyrstu vísbendingar um þetta mannvirki koma fram á korti frá 1930. Þarna fundust gólflög árið 1957 sem sáust á níu metra kafla í lagnaskurði og í sama skurði fannst hinn frægi biskupsbagall frá 11. öld. Grafið var niður á hluta byggingarinnar 2003-2004 af Fornleifastofnun Íslands og kom þá í ljós voldugur veggur. Nú hefur verið að staðfest að veggurinn tilheyrir stærri byggingu með fleiri húsum í kring.

Af öðrum minjum sem skráðar hafa verið eru: Leifar af fleiri þingbúðum, fundur fornlegra minja á Spönginni og kortlegging herstöðvar úr seinni heimsstyrjöldinni við Hakið.
Með notkun dróna hafa fengist vísbendingar um staðsetningu fornra eyðibýla, sem getið er í gömlum heimildum en nákvæm staðsetning þeirra hefur ekki verið ljós. Eftir ítarlega skoðun á myndum úr drónum voru í haust gerðar borkjarnarannsóknir á fjórum stöðum og staðfest að þetta eru eyðibýli. Þar er um að ræða Grímastaði, sem nefndir eru í Harðar sögu og Hólmverja og Litla-Hrauntún sem var í byggð fyrir pláguna miklu 1402 en staðsetning þess hefur verið á reiki þó munnmæli væru um skálarúst. Einnig hefur líkleg skálarúst verið staðsett inn við Hrafnabjörg. Í skráningarvinnunni hefur athygli einnig verið beint að Þingvallavatni og mögulegum fornleifum neðanvatns enda staðfest landsig um 3-4 metrar síðan á þjóðveldisöld. Nokkrar minjar hafa verið skráðar undir vatnsyfirborði, þar á meðal rúst skammt frá Vellankötlu og túngarður í Vatnskoti. Einnig hafa komið vísbendingar um fleiri óþekktar minjar í Öxará.