Veðrið á Þingvöllum °C m/s.

Fimmtudagsgöngur

Sumardagskrá - Fimmtudagskvöldgöngur

Fimmtudagskvöldgöngur hefjast klukkan 20:00 frá Gestastofunni Haki

Með tilliti til sóttvarna var ákveðið að fresta upphafi fimmtudagskvöldgangna á Þingvöllum fram til 24. júní. Dagskrá verður því sem hér segir. Athugið að það má búast við breytingum á lýsingum þó meginefnið sé nokkurveginn komið:

24. júní Guðni Ágústsson og Óttar Guðmundsson taka fyrir Jónas Jónsson frá Hriflu. Guðni grefur upp minningar um þennan mikilvæga stjórnmálamann en áhrifa hans gætir víða enn þann daginn í dag. Óttar kryfur svo þá ótrúlegu sögu sem spannst um meinta geðveilu Jónasar. 

​1. júlí Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur skrifað heilmargt um peningamál bæði í nútíma og til forna. Hér verður áherslan á hagkerfi þjóðveldistímans og íslendingasagnanna. Hvaða áhrif hafði peningaleysi Gunnars á Hlíðarenda á framvindu Brennu-Njálssögu ?

8. júlí Ari Trausti Guðmundsson formaður Þingvallanefndar og jarðfræðingur. 
Umræðuefni verður Þingvellir í þátíð og nútíð. Margt hefur breyst á Þingvöllum síðastliðin fjögur ár. Ferðaþjónustan tók ævintýralegt ris og síðan dýfu í kjölfar COVID-19. Þjóðgarðurinn hefur staðið í miklu uppbyggingarferli undanfarið til að vera í stakk búinn að vernda staðinn en um leið tryggja upplifun. 

15. júlí Sumarliði Ísleifsson - Norrænar slóðir og ferðasögur.
Hvaða augum litu erlendir ferðamenn á land og þjóð. Var viðhorfið jákvætt þar sem dreginn var fram hinn mikli bókmenntaarfur þjóðarinnar og fegurð landsins lofuð hástert? Eða voru fremur dregin fram sértæk lund eyjaskeggja, litið niður á híbýli fólks og lifnaðarhætti?
Sumarliði Ísleifsson hefur undanfarna áratugi grafið upp lýsingar um Ísland í ferðabókum þeirra sem heimsóttu landið síðust 250 ár. Á síðasta ári kom út bók hans: Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland - viðhorfasaga í þúsund ár. Hlaut bókin mikið lof sem og íslensku bókmenntaverðlaunin 2021. 

22. júlí  Óttar Guðmundsson geðlæknir ræðir forföður sinn Snorra Sturluson. Óttar hefur í gegnum árin á gamansaman hátt farið i gegnum geðheilsu landsins frægustu einstaklinga. Snorri verður verðugt viðfangsefni á Þingvöllum enda tíður gestur hér áður fyrr.

29. júlí ***AFLÝST! ***
Síðustu göngu sumarsins undir stjórn Þóru Karítast Árnadóttur verður aflýst vegna COVID ástandsins. Þjóðgarðurinn og Þóra Karitas voru sammála eftir samtal að ekki verður að þessari göngu að sinni. Allir þó spenntir að hún verði haldin seinna á þessu eða næsta ári.
Þóra Karítas skrifaði efirminnilega bók sem kom út í fyrra og heitir Blóðberg. Fjallar bókin um raunir Þórdísar Halldórsdóttur sem var drekkt í Drekkingarhyl.