Urriði

Urriðinn í Þingvallavatni hefur lengi verið meðal umtöluðustu vatnafiska á Íslandi, og þó víðar væri leitað en hann á ættir sínar að rekja til vatna á Bretlandseyjum.

Frægð urriðans byggist fyrst og fremst af því hve mikilli stærð hann getur náð og hve mikið var af honum. Eftir að urriðinn lokaðist inni í Þingvallavatni í kjölfar seinustu ísaldar fann urriðinn góðar aðstæður til búsetu og greindist í marga stofna víðsvegar um vatnið.

Þekktasti stofninn tengdist Efra-Sogi sem var hið náttúrulega útfall Þingvallavatns til suðurs og annar þekktur stofn hefur hrygningarstöðvar í Öxará. Helstu ástæður þess að Efra-Sog fóstraði stærsta urriðastofn vatnsins voru mikill straumur og ármöl sem mynduðu góð skilyrði fyrir hrygningu urriðans og uppvöxt bitmýs sem
urriðinn nærðist á.

Urriðinn getur náð ótrúlegri stærð sem áður fyrr dró að veiðimenn víðsvegar frá en veiðibækur sýna að ekki var óalgengt að fá milli 20-30 punda urriða. Þegar Steingrímsstöð var reist árið 1959 við suðurenda Þingvallavatns eyðilögðust stærstu hrygningarstöðvar urriðans með þeim afleiðingum að stærsti urriðastofninn í vatninu hefur ekki borið sitt barr síðan.

Á undanförnum árum hafa lífshættir urriðans verið rannsakaðir ítarlega til að kynnast megi þessum risa vatnsins betur. Við þessar rannsóknir hafa sést allt að 20 punda urriðar við hrygningu í Öxará.

Nánar má kynnast rannsóknum á urriðanum í Kastljós innslagi frá RÚV.