Fornleifarannsóknir fram til 2000

Rannsóknir á fornum mannvistarleifum á Þingvöllum hófust á 18. öld og síðan hafa verið gerðar margvíslegar athuganir. Elsta lýsing af þingstaðnum er frá 1700. Þar er sagt frá Lögréttu, Lögberg og 18 búðum. Í þessari lýsingu er sagt að hið gamla Lögberg sé á Spönginni í Flosagjá. Hafa fræðimenn síðan deilt hart um hvort Lögberg hafi verið þar eða á Hallinum vestan Öxarár en víst er að þingið stóð þar á seinni öldum. Á 18. öldinni voru gerðar fleiri lýsingar á þingstaðnum, búðum og öðrum mannvirkjum sem þar stóðu. Í ferðabókum Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er að finna merkilegar lýsingar á þingvöllum og þeim minjum sem þar eru.

Á 19. öld fór áhugi á fornleifum og sögustöðum vaxandi. Þá fengu gömul mannvirki á Þingvöllum táknrænt gildi í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga þar sem pólitískri sögu og sögu fræða og þjóðlegra rannsókna var slegið saman. Sigurður Guðmundsson málari og stofnandi Forngripasafns Íslands gerði rannsókn á Þingvöllum 1861.

Árið 1878 var gerð fornleifarannsókn á Þingvöllum sem Sigurður Vigfússon einn af aðalhvatamönnum hins íslenska fornleifafélags gerði grein fyrir í skýrslu  í  fyrstu árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1880-1881. Þetta var fyrsta sjálfstæða verkið um fornleifar á Þingvöllum.

Á þriðja áratug síðustu aldar gerði Matthías Þórðarson þjóðminjavörður ýmsar athuganir á þingstaðnum,  meðal annars gerði hann nýjan uppdrátt af þingstaðnum og stíflaði vestasta farveg Öxarár því hann óttaðist að Öxará eyddi fornleifum á svæðinu. Hér má lesa grein eftir Matthías í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags frá 1921um Þingvelli.

Einn merkasti fornleifafundurinn á Þingvöllum er tá-bagall sem fannst óvænt í Þingvallatúni árið 1957 þegar verið var að grafa fyrir jarðstreng. Tá-bagall er tignarmerki biskupa og ábóta. Tá-bagallinn er skreyttur í víkingaaldarstíl og taldi Kristján Eldjárn hann vera frá ofanverðri 11.öld.  Hér má lesa nánar um fund tábagalsins í grein Kristjáns Eldjárns í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags frá 1970.

Í  rannsókn sem gerð var á árunum 1986-1988 undir stjórn Guðmundar Ólafssonar deildarstjóra á Þjóðminjasafni voru skráðar 50 búðartóftir og tóftarbrot á þingstaðnum við Öxará.

Árið 1999 gerði Fornleifastofunum Íslands SES rannsókn við kirkjuna á Þingvöllum og þar kom í ljós leifar kirkju frá 16.öld líklega fyrstu kirkju á þessum stað ásamt hluta af þingbúð. Orri Vésteinsson stjórnaði þeirri rannsókn.