Rannsókn við Þingvallakirkju 2009

Árið 2009 var gerður björgunaruppgröftur við Þingvallakirkju vegna framkvæmda við Þingvallakirkju í tilefni af 150 ára afmæli kirkjunnar. Verkið var unnið af Byggðasafni Árnesinga undir stjórn Margrétar Hallmundsdóttur fornleifafræðings.

Framkvæmdaeftirlit sem fór fram árið 2006, benti til þess að minjar væru allt í kring um kirkjuna.  Fornleifavernd ríkisins taldi því nauðsynlegt að fornleifafræðingur fylgdist með þegar stétt framan við kirkju yrði fjarlægð.

Stjórnandi rannsóknarinnar var Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur. Við uppgröftinn starfaði Guðrún Jóna Þráinsdóttir fornleifafræðingur auk hennar, Margrét Björk Magnúsdóttir, Nikola Trbojevic, Adian Bell og Scott Ridell.

Markmið rannsóknarinnar var að fá hugmynd um hvaða minjar væru við kirkjuna og hversu gamlar þær væru. Þar sem minjarnar eru friðlýstar var kappkostað að grafa af eins mikilli nákvæmni og hægt var og setja niðurstöður í samhengi við fyrri rannsóknir við kirkjuna. Ekki var farið í sögu kirkna á Þingvöllum í þessari skýrslu og vísast til skýrslu Fornleifastofnunar Íslands frá 1999 þar sem er fjallað mjög ítarlega um Kirkjur á Þingvöllum.

Meðal þess sem kom í ljós var hluti af gamalli kirkju fyrir framan núverandi kirkju sem hugsanlega  er sú sama og Orri Vésteinsson fann við uppgröft árið 1999. Einnig fannst hluti af búð fyrir framan kirkjuna og við suðurhliðina fannst hluti af húsi og fleiri byggingar.Smámynt sem fannst við Þingvallakirkju sleginn í nafni Ottós III Þýskalands keisara frá 983-1002.

Hér má sækja skýrslu um uppgröftinn.