Sumardagskrá - Fimmtudagskvöldgöngur

Fimmtudagskvöldgöngur hefjast klukkan 20:00 frá Gestastofunni Haki

Með tilliti til sóttvarna var ákveðið að fresta upphafi fimmtudagskvöldgangna á Þingvöllum fram til 24. júní. Dagskrá verður því sem hér segir. Athugið að það má búast við breytingum á lýsingum þó meginefnið sé nokkurveginn komið:

24. júní Guðni Ágústsson og Óttar Guðmundsson taka fyrir Jónas Jónsson frá Hriflu. Guðni grefur upp minningar um þennan mikilvæga stjórnmálamann en áhrifa hans gætir víða enn þann daginn í dag. Óttar kryfur svo þá ótrúlegu sögu sem spannst um meinta geðveilu Jónasar. 

​1. júlí Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur skrifað heilmargt um peningamál bæði í nútíma og til forna. Hér verður áherslan á hagkerfi þjóðveldistímans og íslendingasagnanna. Hvaða áhrif hafði peningaleysi Gunnars á Hlíðarenda á framvindu Brennu-Njálssögu ?

8. júlí Ari Trausti Guðmundsson formaður Þingvallanefndar og jarðfræðingur. 
Umræðuefni verður Þingvellir í þátíð og nútíð. Margt hefur breyst á Þingvöllum síðastliðin fjögur ár. Ferðaþjónustan tók ævintýralegt ris og síðan dýfu í kjölfar COVID-19. Þjóðgarðurinn hefur staðið í miklu uppbyggingarferli undanfarið til að vera í stakk búinn að vernda staðinn en um leið tryggja upplifun. 

15. júlí Sumarliði Ísleifsson - Norrænar slóðir og ferðasögur. Hvaða augum litu erlendir ferðamenn landið og landann. Sumarliði er höfundur bókarinnar Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland - viðhorfasaga í þúsund ár og vann með henni íslensku bókmenntaverðlaunin 2021. 

22. júlí  Óttar Guðmundsson geðlæknir ræðir forföður sinn Snorra Sturluson. Óttar hefur í gegnum árin á gamansaman hátt farið i gegnum geðheilsu landsins frægustu einstaklinga. Snorri verður verðugt viðfangsefni á Þingvöllum enda tíður gestur hér áður fyrr.

29. júlí Þóra Karitas Árnadóttir höfundur bókarinnar Blóðberg. Aftaka og raunir konu munu verða meginefnið í þessari göngu.