Veðrið á Þingvöllum 9,0°C S 5 m/s.

Sumardagskrá - Fimmtudagskvöldgöngur

Fimmtudagskvöldgöngur hefjast klukkan 20:00 frá Gestastofunni Haki

Með tilliti til sóttvarna var ákveðið að fresta upphafi fimmtudagskvöldgangna á Þingvöllum fram til 24. júní. Dagskrá verður því sem hér segir. Athugið að það má búast við breytingum á lýsingum þó meginefnið sé nokkurveginn komið:

24. júní Guðni Ágústsson og Óttar Guðmundsson taka fyrir Jónas Jónsson frá Hriflu. Guðni grefur upp minningar um þennan mikilvæga stjórnmálamann en áhrifa hans gætir víða enn þann daginn í dag. Óttar kryfur svo þá ótrúlegu sögu sem spannst um meinta geðveilu Jónasar. 

1. júlí Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur skrifað heilmargt um peningamál og þá helst til forna. Hvaða áhrif hafði peningaleysi Gunnars á Hlíðarenda á framvindu Brennu-Njálssögu ?

8. júlí Steinunn Kristjánsdóttir - Aftökustaðir á Þingvöllum. Steinunn er einn landsins þekktasti fornleifafræðingur. Heldur hún úti einkar fróðlegum gagnagrunni um aftökustaði um landið allt. Á Þingvöllum fóru fjölmargar refsingar fram enda var lengst af æðsti dómstóll landsins haldinn þar hvert sumar.

15. júlí Sumarliði Ísleifsson - Norrænar slóðir og ferðasögur. Hvaða augum litu erlendir ferðamenn landið og landann. Sumarliði er höfundur bókarinnar Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland - viðhorfasaga í þúsund ár og vann með henni íslensku bókmenntaverðlaunin 2021. 

22. júlí  Óttar Guðmundsson geðlæknir ræðir forföður sinn Snorra Sturluson. Óttar hefur í gegnum árin á gamansaman hátt farið i gegnum geðheilsu landsins frægustu einstaklinga. Snorri verður verðugt viðfangsefni á Þingvöllum enda tíður gestur hér áður fyrr.

31. júlí Þóra Karitas Árnadóttir höfundur bókarinnar Blóðberg. Aftaka og raunir konu munu verða meginefnið í þessari göngu.