Veðrið á Þingvöllum -5,4°C Logn 0 m/ s.

Aðalframkvæmdarstjóri UNESCO á Þingvöllum

Irina Bokova aðalframkvæmdarstjóri UNESCO kom til Þingvalla með Illuga Gunnarssyni mennta og menningamálaráðherra og fylgdarliði í gær. Þar tóku á móti henni Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður og Einar Á.E.Sæmundsen fræðslufulltrúi og kynntu henni stöðu Þingvalla sem heimsminjastaðar og aðrar áætlanir tengdar uppbyggingu á Þingvöllum.  Heimsminjasáttmálinn og málefni tengd honum falla undir  UNESCO.  Að lokinni kynningu í fræðslumiðstöð var haldið út að útsýnisskífunni þar sem horft var yfir þingstaðinn.  Þaðan var ekið í Þingvallakirkju þar sem frú Vigdís Finnbogadóttir kynnti sögu litlu altaristöflunnar eftir Ófeig Jónsson frá Heiðarbæ í Þingvallasveit.  Að lokinni fróðlegri kynningu var snæddur hádegisverður í boði mennta og menningarmálaráðherra í bústað forsætisráðherra í Þingvallabænum.

Aðalframkvæmdastjóri Menntavísinda og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, Irina Bokova, kom til landsins á laugardaginn í boði mennta- og menningarmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis og dvelst hér á landi fram á þriðjudagsmorgun 27. maí.

Irina Bokova var kjörin aðalframkvæmdastjóri UNESCO árið 2009, fyrst kvenna. Hún er fædd 12. júlí 1952 í Búlgaríu og er með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá Moscow State Institute of International Relations en hefur einnig stundað nám við Maryland-háskóla og Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Bokova hefur mikla reynslu af störfum í utanríkisþjónustu Búlgaríu og gegndi um skeið bæði starfi utanríkisráðherra og varautanríkisráðherra landsins. Þá hefur hún einnig setið á búlgarska þinginu en starfaði sem sendiherra, m.a. gagnvart UNESCO, áður en hún tók við starfi aðalframkvæmdastjóra stofnunarinnar.

Í heimsókn sinni mun aðalframkvæmdastjórinn hitta að máli Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra og sitja boð forseta Íslands að Bessastöðum. Hún mun kynna sér handritasafn Árna Magnússonar, sem er á sérstakri varðveisluskrá UNESCO um Minni heimsins, og ávarpa ráðstefnugesti á alþjóðlegri ráðstefnu um máltækni í Hörpu.