Veðrið á Þingvöllum 5,0°C A 5 m/s.
16. september 2021

Dagur íslenskrar náttúru

Við á Þingvöllum fögnum fjölbreyttri náttúru þjóðgarðsins á degi íslenskrar náttúru. Hvort sem eru skin eða skúrir þá býður náttúran ávallt upp á að hennar megi njóta. Fjöll, flekaskil, gróður og dýralíf er frábært umhverfi til að gleyma streði hversdagsins. Yfir veturinn er helst að njóta snæviþakins landsins ásamt einstaka hrafni og rjúpu.
Frá vori til hausts hefur verið hægt að njóta komu fugla og fylgjast með uppvexti ungviðsins. Flóra svæðisins tekur síðan örum breytingum yfir þennan stutta hlýindatíma sem líður hratt yfir. Frá holtasóley og blágresi fyrri part sumars til smjörgras yfir hásumarið og fallegra bláberja á haustin. Þannig hefur sumar flórunnar flogið áfram.

Fjölmargir hafa lagt leið sína til Þingvalla í sumar. Hvort sem það voru skipulagðar skólaheimsóknir, fræðslugöngur eða á eigin vegum.

Nú taka við fagrir haustlitir og hvetjum við sem felsta til að njóta þeirrar litadýrðar sem haustið býður yfir. Um leið má einnig njóta þess að höfðingi Þingvallavatns, urriðinn er byrjaður að ganga upp Öxará. Einstaka fiskar eru byrjaðir að láta á sér kræla en þegar líður inn í október verða það heilu breiðurnar. Undanfarna tvo áratugi hefur Þingvallaþjóðgarði í samstarfi við Jóhannes Sturlaugsson og fleiri aðila tekist byggja upp stofn ísaldarurriðans í Þingvallavatni. Urriðinn er sannkallað ferlíki vatnsins og étur flest sem að kjafti kemur. Sannkallað sjónarspil náttúrunnar sem má léttilega njóta af bökkum Öxarár eða af brúnum þar yfir.