Veðrið á Þingvöllum -0,3°C A 6 m/ s.

Fimmtudagskvöld á Þingvöllum sumarið 2014

Fimmtudagskvöldgöngur verða á sínum stað í dagskrá þjóðgarðsins í sumar.  Gönguferðirnar hefjast 5.júní þegar Margrét Hallmundsdóttir og Einar Á.E.Sæmundsen fjalla um fornleifaskráningu í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Þann 12.júní fjallar Dr. Þór Jakobsson veðurfræðingur um lýðveldishátíðina 1944 og minningar núlifandi Íslendinga um þennan merka dag í sögu Íslands. 19. júní fjallar Kristín Vala Ragnarsdóttir umhverfisverkfræðingur um sjálfbærni, umhverfisverndar og hlutverk þjóðgarða.

Fagur himinhringur er titill gönguferðar 26.júní þegar Gerður Kristný rithöfundur leiðir gesti um Þingvelli. Notkun Íslendinga á áfengum drykkjum í Almannagjá í gegnum aldirnar verður viðfangsefni Bjarka Bjarnasonar sagnfræðings þann 3.júlí og Stefán Pálsson sagnfræðingur mun fjalla um Þingvelli og pólitísk mótmæli á 20.öld í fyrirlestri sínum þann 10.júlí.  

Umfjöllun um Njálssögu er vinsælt umfjöllunarefni í fimmtudagskvöldgöngum og þann 17.júlí mun Sigurður Hróarsson forstöðumaður Njálusetursins á Hvolsvelli fara um Njáluslóð á Þingvöllum og reifa helstu viðburði sem gerast á Þingvöllum í Njálu.

Að lokum mun Gunnar Karlsson sagnfræðingur og prófessor fjalla um ástir á Þingvöllum og afleiðingar hennar í fyrirlestri sínum 24.júlí taka til umfjöllunar ástarmál úr þekktum Íslendingasögum sem hafa gerst á Þingvöllum.  

Gönguferðirnar hefjast alltaf við gestastofuna á Hakinu kl.20.00 á fimmtudagskvöldum og eru allir velkomnir.  Nánari upplýsingar um efnistök verða sett síðar á vefinn.