Veðrið á Þingvöllum 11,9°C SSA 2 m/s.
21. júlí 2021

Díno og Marteinn merktir

Glæstur hópur vaskra einstaklinga voru mættir eldsnemma morguns á Þingvelli undir leiðsögn Arnórs Þóris Sigfússonar hjá Verkís. Tilgangurinn var að ná tveimur karlgæsum og merkja með GPS/GSM-sendum svo hægt verði að fylgjast með ferðum þeirra.

Eftir nokkra leit náðust þrjár gæsir, þar af tvær sem voru karlkyns. Voru þeir merktir og fengu nöfnin Dínó og Marteinn.  Gassinn Dínó er styrktur af Dínó sfl. Og Marteinn af Verkís. 

Arnór Þórir hefur í gegnum tíðina merkt þó nokkuð af fuglum og hefur Verkís staðið veg og vanda að því að halda utan um gps hnit þeirra. Má fylgjast með ferðalagi þó nokkurra gæsa síðastliðið ár á https://gps.verkis.is/gaesir20/ og von bráðar einnig þeim Dínó og Marteini.  Á síðunni má m.a. sjá gæsirnar Þór og Stefni sem merktir voru á Þingvöllum sumarið 2019.  Þór er núna með fjóra unga en Stefnir er ungalaus og í felli með geldfuglahópi við Öxarána.

Á undanförnum árum hefur Verkís staðið fyrir merkingum á grágæsum með sendum í samvinnu við Wildfowl and Wetland Trust á Bretlandi og Náttúrustofu Austurlands.  Nú er Náttúrufræðistofnun Íslands að bætast í hópinn ásamt NatureScot  og til stendur að merkja 35 grágæsir með GPS/GSM sendum og voru þeir Dínó og Marteinn þær fyrstu af þeim.