Þór kominn til Þingvalla

Ekki er hér átt við þrumuguðinn Þór þó búast megi við að goðið hafi verið blótað á þingstaðnum til forna heldur gæsina Þór sem er komin til varpstöðva sinna á Þingvöllum.
Í vetur hélt gæsin til í Orkneyjum, en einhverjir landnámsmenn gætu einnig hafa haft þar viðdvöl áður en til Íslands var haldið. Þá er gæsin Stefnir einnig komin í þjóðgarðinn. 
Ferðalag Þórs tók tæpa þrjá daga en gæsin áði á leiðinni fyrst í Færeyjum og síðan Hornafirði áður en lokahnykkurinn til Þingvalla var floginn.
Gæsirnar voru merktar af Arnari Þóri Sigfússyni sumarið 2019 en fylgjast má með ferðalögum gæsanna tveggja og fleiri til á heimasíðu Verkís.

Koma gæsa er einn af ljúfari vorboðum sem má njóta á Þingvöllum sem og um land allt.