Veðrið á Þingvöllum °C m/s.

Gjaldtaka í Peningagjá.

Í rúmlega hundrað ár hafa ferðamenn kastað peningum í Nikulásargjá sem hefur af þeim sökum fengið nafnið Peningagjá.  Í morgun hóf þjóðgarðurinn á Þingvöllum að taka gjald fyrir að henda peningum í Peningagjá.  Framvegis verða ferðamenn rukkaðir fyrir að kasta pening í gjánna sem hefur aldrei verið vinsælla en undanfarin misseri.  

Fyrir hverjar 100 krónur sem kastað er í gjánna þarf að borga 300 krónur en ef hópur eða fjölskylda tekur sig saman er 15% afsláttur í boði.  Ferðaþjónustufyrirtæki geta einnig gert beina samninga við þjóðgarðinn og sérkjör bjóðast fyrir námsmenn, eldri borgara og öryrkja.  Landvörður með posa og skiptimynt verður staðsettur við Peningagjá en þjóðgarðurinn vinnur einnig að stafrænni lausn sem kemur fyrir sumarið.  Framvegis er erlend smámynt einnig bönnuð.

Nokkrir ferðamenn misskildu gjaldtökuna og köstuðu kreditkortum sínum í Peningagjá og þurfti að kalla til kafara til að sækja þau. Þrátt fyrir þessa byrjunarörðugleika tóku ferðamenn þessu almennt vel.  

Áætlanir gera ráð fyrir að tekjur verði miklar og verða þær nýttar til að standa undir aukinni þjónustu við ferðamenn sem aldrei hafa verið fleiri á Þingvöllum en í ár.  Í dag verður sérstakt tilboð til kl 18.00 en þá kostar 150 krónur að kasta 100 krónum í gjánna.

Uppfært 2.apríl:   Þessi frétt var uppspuni frá rótum í tilefni 1.apríl.