Veðrið á Þingvöllum -0,1°C A 6 m/ s.

Ýmsar skemmdir vegna veðurs.

Nú er ljóst að veðurhamurinn síðustu daga hefur leikið innviði ferðaþjónustunnar á Þingvöllum grátt. Göngustígurinn frá Lögbergi og að Flosagjá verður að líkindum lokaður fram á vor þar sem að göngupallurinn hefur rifnað upp vegna flóða og jakaframburðar. Mikil snjókeila hefur myndast undan Drekkingarhyl sem stýrir vatni í Öxará í nýja farvegi. Þetta er þó ekki óvenjulegt og hefur gerst áður. Tvö fræðsluskilti hafa losnað og rifnað af festingum, annað á Lögbergi og hitt við Silfru. Einnig fauk hurðin í gestastofu á Haki illa upp í morgun og brotnaði rúða og því verða gestir að ganga inn að austanverðu eða Almannagjár megin. Við komum skiltum og glerjun í vinnslu sem fyrst en einsog áður sagði verður ófært um tíma yfir ála Öxarár.