Veðrið á Þingvöllum °C m/s.
27. nóvember 2014

Skoðanakönnun meðal ferðamanna á Þingvöllum sumarið 2014

Í sumar gerði fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar (RRF) könnun meðal ferðamanna á Þingvöllum.  Eftirfarandi atriði eru helstu niðurstöður úr könnununni.

Ferðamönnum til Þingvalla hefur á tíu árum fjölgað um 77% en árið 2004 voru þeir 332 þúsund en áætlanir gera ráð fyrir um 588 þúsund ferðamenn komi til Þingvalla árið 2014.  Sérstaka athygli vekur hve mikil aukning er á ferðamönnum til Þingvalla yfir dimmustu vetrar-mánuðina; janúar, febrúar, nóvember og desember. Þannig er áætlað að þeir hafi verið um 21 þúsund árið 2004 en 71 þúsund árið 2013, sem er fjölgun uppá 238%.

Í könnuninni var meðal annars spurt hvort aðrir ferðamenn á Þingvöllum hefðu áhrif á upplifun gesta.  Aðrir ferðamenn á Þingvöllum höfðu engin áhrif á upplifun 62% Íslendinga og ekki á 80% erlendra ferðamanna. Hins vegar töldu 18% Íslendinga og 14% erlendra ferðamanna að aðrir ferðamenn hefðu haft neikvæð áhrif á upplifun þeirra af Þingvöllum. 20% Íslendinga og 6% erlendra ferðamanna töldu aftur á móti að aðrir ferðamenn hefðu haft jákvæð áhrif á upplifunina.

Nokkur munur var á upplifun gesta af álagi á náttúru Þingvalla.  Rétt um þriðjungur Íslendinga töldu að náttúra Þingvalla væri undir miklu álagi ferðamanna meðan aðeins 4% erlendra gesta álitu að náttúra Þingvalla væri undir miklu álagi vegna ferðamanna.  Stærsti hópurinn taldi að náttúra staðarins væri undir nokkru álagi, 53% Íslendinga og 44% erlendra ferðamanna.

Mikill meirihluti Íslendinga var mjög eða fremur sammála því að á Þingvöllum ætti að vera lifandi sögumiðlun (76%) og veitingastaður (68%). Þriðjungur þeirra var sammála því að reist yrði hótel á staðnum (33%) en minni áhugi var meðal erlendra ferðamanna á að gera breytingar á Þingvöllum. Þó var tæplega helmingur þeirra mjög eða fremur sammála því að á Þingvöllum ætti að vera lifandi sögumiðlun (47%) og tæpur þriðjungur að þar ætti að vera veitingastaður (30%). Þá vildi  mun færri  stærri minjagripaverslun eða hótel á Þingvöllum (8-9%).

Um 98% erlendra gesta ætluðu að mæla með Þingvöllum við aðra en um 81% erlendra ferðamanna í könnuninni höfðu leitað sér upplýsinga um Þingvelli áður en þeir komu þangað. Þeir fengu helst upplýsingar um staðinn í ferðahandbókum (58%) en síðan á Google (28%) eða hjá vinum/fjölskyldu (21%). 

Í könnuninni á Þingvöllum voru settar fram ýmsar fullyrðingar um Þingvelli sem þátttakendur í könnuninni voru beðnir um að lýsa sig sammála, hlutlausa eða ósammála. Ekki voru nema að hluta til settar fram sömu fullyrðingar meðal innlendra og erlendra gesta þar sem gengið var út frá því að skynjun Íslendinga af Þingvöllum sé talsvert önnur en erlendra gesta sökum þess hve staðurinn er samofinn þjóðarvitund landsmanna.

Nær allir Íslendingar voru mjög eða fremur sammála því að Þingvellir væru frábær staður (97%) og mikill meirihluti mjög eða fremur sammála því að Þingvellir væru afslappandi staður (92%), hátíðlegur (86%), rómantískur (83%) og heilagur (81%). Hins vegar voru sárafáir sammála því að Þingvellir væru ofmetinn staður (6%) eða líflaus (3%).  

Erlendir ferðamenn voru ekki eins afgerandi í afstöðu sinni og fleiri hlutlausir. Þó voru 69-71% mjög eða fremur sammála því að Þingvellir væru náttúrulegur/óspilltur staður, öræfasvæði og afslappandi staður en nokkru færri að hann væri rómantískur (54%). Fáir voru því hins vegar mjög eða fremur sammála að Þingvellir væru óáhugaverður staður (8%) en mikill meirihluti ósammála (84%) .


Spurt var um álit á þjónustu starfsmanna sem fékk hæstu meðaleinkunn nokkurra þátta, 8,3 hjá Íslendingum og 7,9 hjá erlendum ferðamönnum.  Það sem vakti athygli að  39% Íslendinga og 45% erlendra ferðamanna áttu í einhverjum samskiptum við starfsmann / starfsmenn Þingvallaþjóðgarðs en það eru nokkuð mikil samskipti ef hugað er að fjölda ferðamanna á Þingvöllum og fjölda starfsmanna.  Spurt var um notkun smáforritaapp/öpp fyrir snjallsíma í ferðinni. Niðurstaðan er að það gerðu 9% Íslendinga og 30% erlendra ferðamanna.

Samantektin og niðurstöðurnar byggja á þremur könnununum, langtímakönnun RRF meðal brottfararfarþega, símakönnun og vettvangskönnunin á Þingvöllum sumarið 2014. Hún var gerð frá síðari hluta maí og fram í byrjun september. Könnunin var á sjö tungumálum: íslensku, norsku, ensku, þýsku, frönsku, ítölsku og spænsku. Tveir spyrlar RRF fóru í 12 skipti til Þingvalla á tímabilinu og voru þar að jafnaði í 5 klst í senn.

Mikið af góðum upplýsingum fékkst um fleiri þætti starfsemi og aðstöðu á Þingvöllum sem nýttar verða við skipulag og í stefnumótun þjóðgarðsins sem er nú til endurskoðunar.