Veðrið á Þingvöllum 5,4°C S 6 m/s.
18. janúar 2021

Doktorsverkefni og marflær og örverur í uppsprettum

Dr. Ragnhildur Guðmundsdóttir lauk doktorsverkefni sínu frá Háskóla Íslands október síðaslitiðinn. Var efniviður verkefnisins marflær og örverur í uppsprettum sem meðal annars finnast á Þingvöllum. Leiðbeinendur Ragnhildar voru Snæbjörn Pálsson, Bjarni K. Kristjánsson og Viggó Þ. Marteinsson.
Íslandsmarflóin, Crangonyx islandicus, er grunnvatnsmarflóartegund sem finnst eingöngu á Íslandi. Erfðarannsóknir hafa sýnt að hún hefur aðgreinst hér á landi í um 4.8 milljónir ára sem bendir til þess að hún hafi lifað af undir ísaldarjökli en á þessu tímabili hefur Ísland endurtekið verið þakið jöklum. Líklega hefur tegundin verið á Íslandi allt frá því að forveri Íslands varð að eyju, þegar landbrúin til Grænlands rofnaði fyrir um 15 milljónum ára. Núverandi þekkta útbreiðsla tegundarinnar er í grunnvatni hraunalinda á flekaskilum landsins. Þessar lindir eru eins konar náttúrulegur gluggi inn í grunnvatnskerfið en þar má finna nokkuð flókið vistkerfi á mótum grunnvatns, yfirborðsvatns og yfirliggjandi jarðvegi. Í þessari ritgerð er örverusamfélag þessa svæðis og marflónna skoðað, bæði til að kanna frekara líf í þessu lítt þekkta kerfi og til að skoða þá ferla sem hafa mótað samfélögin.
Niðurstöðurnar benda til þess að á marflónum finnast nokkrar tegundir af bifdýrum og bakteríum sem ekki finnast í uppsprettunum nema að litlu leyti. Bæði slembiferlar og umhverfisþættir reyndust stýra tegundasamsetningunni fyrir örveruhópana í uppsprettunum. Þættir eins og sýrustig, hitastig, hvort fiskur fannst í sama búsvæði og landfræðileg staðsetning mótuðu bakteríusamfélögin á meðan hitastig og far réðu mestu um samsetningu bifdýrasamfélaganna. Í bakteríusamfélaginu var að finna ýmsa efnatillífandi hópa sem bendir til þess að einhver frumframleiðni á sér stað í grunnvatnskerfinu. Það gæti því mögulega útskýrt hvernig marflærnar gátu lifað af jökulskeið í grunnvatni landsins.

Nánari lestur má nálgast hér.