Þingvellir til framtíðar - Álagsmat í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Meistaravörn

Miðvikudaginn 8. september varði Jóna Kolbrún Sigurjónsdóttir starfsmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum meistaraverkefnið sitt: Þingvellir til framíðar - Álagsmat í þjóðgarðinum á Þingvöllum. 
Með verkefninu er þjóðgarðurinn kominn með árangursríkt verkfæri í hendurnar til að mæla viðhorf gesta þjóðgarðsins.

Verkefnið var tvíþætt: Í fyrri hlutanum voru fyrirliggjandi gögn um notkun gesta á innviðum í þjóðgarðinum á Þingvöllum á tveggja ára tímabili tekin og greind með það að markmiði að kanna hvort hægt sé að nýta fyrirliggjandi upplýsingar um gestakomur og notkun á innviðum til að búa til módel og með því spá fyrir um það hvaða áhrif fjölgun ferðamanna hafi á þolmörk innviða og upplifun gesta. Niðurstöðurnar voru þær að með óbreyttum gögnum gefur greiningin einungis takmarkaða mynd. Greining gagnanna jók hins vegar skilning á því hvað gera þarf varðandi fyrirkomulag og framsetningu við gagnsöfnun og eru gerðar tillögur að því hvernig bæta skuli gögnin til að ná þessu markmiði. Lagt er til að gagnasöfnun í þjóðgarðinum verði bætt á ýmsan hátt og tryggt verði að starfsmenn þjóðgarðsins hafi alltaf aðganga að öllum þeim gögnum sem safnast. Einnig er lagt til að gestakannanir verði gerðar reglulega og niðurstöður þeirra settar saman við fyrirliggjandi gögn. Þannig geta stjórnendur þjóðgarðsins séð á hvaða tímapunkti gestum finnst upplifun þeirra vera síðri en ella.

Hinn hluti verkefnisins var gestakönnun sem hafði það markmið að kanna upplifun gesta í þjóðgarðinum á Þingvöllum á tímum heimsfaraldurs COVID-19. Gestakönnunin var framkvæmd frá 24. ágúst 2020 til 4. október 2020. Veggspjöld með QR-kóða voru hengd upp í þjóðgarðinum og ákveðnar stöðvar voru mannaðar eftir fyrirfram ákveðinni áætlun. Gestir skönnuðu QR-kóðann og voru þannig leiddir inn á spurningakönnun verkefnisins. Alls fengust 298 svör (n=298) og helstu niðurstöður bentu til þess að gestir hafi verið mjög ánægðir með. 
Þjóðgarðurinn óskar Jónu Kolbrúnu til hamingju með að hafa klárað meistaraverkefnið sitt með glæsilegum árangri.