Veðrið á Þingvöllum 5,3°C S 7 m/s.
3. desember 2013

Nemendur í verknámi

Nemendur í námskeiðinu Myndvinnsla og landgreiningar í jarðfræðirannsóknum við Háskóla Íslands hafa verið í verknámi síðustu vikur í þjóðgarðinum og á Þingvallavatni.  Á námskeiðinu sem er undir stjórn Dr. Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings og Dr. Ingibjargar Jónsdóttur, dósents  við Jarðvísindadeild og Raunvísindastofnun Háskólans kynnast nemendur mismunandi aðferðum við mælingar á landi og í vatni með aðstoð Árna Friðrikssonar meistaranema og Þorsteins Jónssonar tæknimanns hjá Jarðvísindastofnun. 

Nemendur hafa meðal annars unnið að því að kortleggja botn vesturhluta Þingvallavatns. Til þess að kortleggja botn vatnsins er notast við lítinn plastbát sem sérhannaður er til verksins. Í bátnum er fjölgeislamælir, tölvur og annar búnaður til að vinna úr gögnum sem mælirinn aflar. Fjölgeislamælingin virkar þannig að hljóðbylgjur eru sendar úr tæki sem nær niður að botni bátsins. Þessum hljóðbylgjum er dreift í fyrirfram ákveðnar gráður þvert á stefnu bátsins. Botn vatnsins endurkastar þessum bylgjum aftur upp í bátinn og tölvubúnaðurinn um borð greinir hversu djúpt þær fóru og hvernig þær endurkastast. Býr tölvan svo til þrívíddarkort af vatnsbotninum. Botn vatnsins hefur ekki áður verið kortlagður svona nákvæmlega.

Árið 1958 var botninn kortlagður með eingeislamælingum og þar áður var Þingvallavatn kortlagt með lóðamælingum, þar sem lóð í bandi er látið síga niður að botni.Flatarmál vatnsyfirborðins er stórt 84 km2 því tekur langan tíma að kortleggja allan vatnsbotninn en báturinn getur mest keyrt á um 3-4 hnútum til þess að gögnin verði sem nákvæmust. Munu starfsmenn Jarðvísindastofnunar HÍ halda kortlagningu eitthvað áfram á meðan veður leyfir. Líklegast klárast kortlagning þó ekki fyrr en næsta vor þegar veðurfarsskilyrði verða betri.

Möguleikar jarðsjár voru einnig kannaðir lítillega einn dagpart m.t.t jarðlaga og fornleifa á þingstaðnum.  Jarðsjá (e. Ground penetrating radar) er tæki sem sendir frá sér rafsegulbylgjur niður í jörðina og hlustar svo eftir endurköstum. Rafsegulbylgjurnar endurkastast af jarðlagamótum, hlutum og öðru sem er að finna neðanjarðar. Jarðsjáin getur unnið á mismunandi tíðni, allt eftir því hversu djúpt menn vilja sjá. Eftir því sem tíðni bylgjanna er hærri, því styttra ná þær niður í jörðina en jafnframt gefa þær betri upplausn. Farið var yfir svæði sunnan við Þingvallabæinn og í Prestakrók norðan við Öxará Bergrunnurinn kom skýrt í ljós á mismunandi dýpi en fyrir ofan það mátti greina á mismunandi stöðum annað endurkast. 

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum veitti leyfi og aðgang að aðstöðu og einnig hafa starfsmenn Þjóðgarðsins fengið að fylgjast með kortlagningunni á bátnum og jarðsjárvinnunni.