Veðrið á Þingvöllum °C m/s.
1. júlí 2014

Framkvæmdir við Hakið

Undarfarna tvo mánuði hafa staðið yfir framkvæmdir við gestastofuna á Hakinu sem miða að því að greiða fyrir umferð ferðamanna.  Framkvæmdin skiptist í nokkur verkefni.  Þar eru gerð nýrra bílastæða og gönguleiða við Gestastofuna stærsta verkefnið.  Nýja bílastæðið verður með stæði fyrir 80 fólksbifreiðar auk akstursleiða og hellulagðra gönguleiða.  Þegar bílastæðin verða fullkláruð mun greiðast að miklu leyti úr þeirri flækju bíla og hópferðabifreiða sem verið hefur á bílastæðinu næst Gestastofunni undanfarin ár.

Einkabílar og minni farartæki leggja munu framvegis leggja á nýja bílastæðinu en rútur geta sett af farþega nær Gestastofunni en rútustæðin stækka einnig nokkuð.   Enn er unnið að lokafrágangi s.s. hellulögnum og kantsteinum en gestir geta notað stæðið að nokkru leyti en stefnt er að því að bílastæðin verði fullkláruð um miðjan júlí.

Annað mikilvægt verkefni er lagning nýs yfirborð á svæði milli Gestastofunnar og Haksins þar sem útsýnispallurinn er.   Þar er unnið að því að leggja  hraunhellur sem eru sagaðar úr hraungrýti.  Eitthvað af grjótinu sem sagað var kom upp úr Kárastaðastíg þegar unnið við gerð brúarinnar en mest af grjótinu kemur úr námu á Reykjanesi.  Eldra yfirborð var gamalt malbikslag sem var lagt yfir hraunið og var farið að láta verulega á sjá og ójafnt.   Það var rifið ofan af og jarðvegsskipt og þjappað undir hellulögn. Verkinu miðar ágætlega en búið er að leggja hellur á um helming svæðisins.

Í tengslum við þetta verkefni var einnig kláruð göngubrú sem tengdi hlaðið við nyrði enda útsýnispallsins á Hakinu. Austan við Gestastofuna var byggður steinsteyptur pallur og skárampur frá hlaði upp á hann við Gestastofuna.  Þar verður hægt að ganga inn í fræðslumiðstöðina og nýtist hann einnig sem útsýnispallur.

Framkvæmdasýsla ríkisins sinnir verkefnisstjórn og VSÓ er með eftirlit með framkvæmdinni. GlámaKím, VSÓ – Ráðgjöf, Landslag ehf. og Vik ehf sjá um hönnun, landslagshönnun og verkfræðihönnun. Verktaki við bílastæði er Suðurtak ehf en verktaki við hraunhellulögn er Kolbeinn Sveinbjörnsson verktaki á Heiðarási í Þingvallasveit og Grásteinn ehf sagaði hraungrýtið. Verktaki við brýr og rampa er Pálmatré ehf og Stálgæði ehf hefur séð um stálsmíði.