Veðrið á Þingvöllum 13,4°C SSV 3 m/s.

Ný bók um þingstaði  "Things in the Viking World"

Nýlega kom út bókin “Things in the Viking World” sem fjallar þá um þingstaði sem tóku þátt í þingstaðaverkefninu sem lauk um áramótin.  Þingvellir voru meðal átta þátttakenda í verkefninu en unnið er að lokaskýrslu verkefnisins en bókin er hluti af ýmsum niðurstöðum úr verkefninu. Nánar má fræðast um verkefni á þessum tengli.

Olwyn Owen fornleifafræðingur frá Skotlandi   ritstýrði bókinni og ritar inngangskafla um sögu þinghalds og útbreiðslu á víkingatímanum.  Anne-Karin Misje fjallar um Gulaþingslögin og þingstað Gulaþings sem talinn er hafa verið í Eivindvik fyrir norðan Bergen.

Torfi Stefán Jónsson sagnfræðingur, framhaldsskólakennari og landvörður á Þingvöllum til margra ára ritar um Þingvelli sem miðstöð þjóðlífs á þjóðveldistímanum. Arne Thorsteinsson fjallar um héraðsþing og þróun þings í Færeyjum.  Brian Smith ritar fjallar um sögu þinga á Hjaltlandseyjum og hvernig þróunin varð eftir 1200.  

Þingsaga Orkneyinga er umfjöllunarefni Söruh Jane Gibbon en meðal annars eru rakin tengsl við Orkneyingasögu.  Saga bæjarins Dingwall í Skotlandi og uppruni nafnsins er rakin í grein eftir David Mcdonald og dregin fram örlög þingstaðarins sem er talin vera undir bílastæði í miðju bænum.  Þingstaðaverkefnið varð til þess að bæjaryfirvöld meðal annars heimiluðu og kostuðu fornleifauppgröft til að kanna betur þingstaðinn.  

Að lokum er grein Andrew´s Johnson frá eyjunni Mön í Írlandshafi en þar eru lög enn sögð upp á hverju sumri á Tynwald og lifir því þingsagan þar vel.

Bókin er um 120 blaðsíður og er hægt að kaupa hana í verslun þjóðgarðsins í þjónustumiðstöðinni og í fræðslumiðstöðinni á Þingvöllum.