Veðrið á Þingvöllum -2,9°C SSV 1 m/ s.

Nýjir vegvísar í þjóðgarðinum.

Á síðustu vikum hefur verið unnið að uppsetningu á vegvísum í þinghelginni.  Það hafa ekki verið vegvísar í þinghelginni í mörg ár og var unnið að þeim í vetur og sumar.  Þeir eru kærkomnir þar sem nokkuð hefur verið um að ferðamenn finni ekki bílastæði eða önnur kennileiti á ferð sinni um þingstaðinn forna.

Vegvísarnir voru hannaðir til að falla vel inn í umhverfi Þingvalla en eru þó vel áberandi þegar komið er að þeim.  Grunnplatan er polyhúðað ál en framan á henni er álplata sem er með texta, táknum og vegalengdum.  Alls eru 17 vegvísar settir niður í þessum áfanga en þeir eru staðsettir á flestum stíga eða gatnamótum þar sem ferðamenn þurfa að velta fyrir sér í hvaða átt skal haldið.

Bílastæði auðkennd
Bílastæðin í kringum þingstaðinn eru nú auðkennd með lit og tölu og kennt við næsta örnefni. Bílastæðið við Hakið er t.d. merkt P1 í gulum lit.  Bílastæði við enda Almannagjár sem hefur gengið undir ýmsum nöfnum er merkt P2 í rauðum lit og kennt við Kastala. Bílastæðið við Langastíg er merkt P3 í grænum lit.  Bílastæðið við Flosagjá er P4 í appelsínugulum lit og við Valhallarreitinn P5 í bláum tón.  Enn á eftir að merkja sjálf bílastæðin með sömu en þrátt fyrir það á að vera hægt að finna bílastæðin auðveldlega nuna.  Á nokkrum vegvísana eru kort til að átta sig betur á staðsetningu.

Vinna við vegvísana er hluti af stærri vinnu við skilti og merkingar á helstu áfangastöðum gesta í þjóðgarðinum á Þingvöllum.  Nú er unnið að stærri kortaskiltum á upphafsgöngustöðum  og einnig þematengdum fræðsluskiltum sem bætast við þau fræðsluskilti sem eru á þingstaðnum nú þegar.

Það voru Annetta Scheving grafískur hönnuður, Árni Jón Sigfússon arkitekt sem hönnuðu skiltin ásamt Einari Á.E. Sæmundsen fræðslufulltrúa þjóðgarðsins.  Merking ehf. smíðaði skiltin en Kolbeinn Sveinbjörnsson verktaki sá um að setja þau upp í samvinnu við starfsfólk þjóðgarðsins.

Hér má sækja kort sem sýnir staðsetningu bílastæða og hvernig þau eru merkt á vegvísunum.