Peningagjá á Þingvöllum þornuð upp

Landverðir á þjóðgarðsins urðu þessu varir í morgun að Peningagjá á Þingvöllum hefur þornað upp.  Þetta er einstakur atburður og ekki eru til heimildir um að slíkt hafi gerst áður.  Peningagjá er sá hluti Flosagjár þar sem ferðamenn síðustu hundrað ár hafa kastað peningum í og er einn af mörgum vinsælum viðkomustöðum ferðamanna á Þingvöllum.  Nú liggur smámynt alls staðar að úr heiminum á þurrum botni gjárinnar.  Inn á milli má einnig finna greiðslukort sem ferðamenn hafa nýtt til að óska sér stærri óska á síðustu árum í flóðbylgju ferðamanna en þau hafa ítrekað sést á botni gjárinnar. 


Jarðfræðingurinn Hrafntinna Bergsdóttir á Jarðsviði Veðurstofunnar telur að miklar líkur séu á að þetta sé dæmigert þurrt öfugsnúið kvikuinnskot sem tengist nýlegum jarðhræringum sem hafa átt sér stað við fjallið Þorbjörn á Reykjanesi.  Það hefur teygt sig djúpt niður og inn á sprungusveim Hengilsvæðisins sunnan við Þingvallavatn með þeim afleiðingum að jarðhnik hefur orðið norðan við vatnið og vatnið horfið úr gjánni.

Starfsmenn þjóðgarðsins hafa síðan í morgun sett upp girðingu til að hefta aðgengi um leið og smámynt er safnað saman.     Landverðir vakta svæðið en vegna samkomubanns og fjarlægðartilmæla yfirvalda vegna Covid 19 verður ekki heimilt að skoða svæðið nema úr fjarlægð.  Sett hefur verið upp vefmyndavél og hægt að fylgjast með með lifandi streymi með því að smella á slóðina hér.  Fjármagnið sem finnst verður nýtt til áframhaldandi uppbyggingar í þjóðgarðinum. 

Uppfært - fréttin var aprílgabb.