Veðrið á Þingvöllum 11,9°C SSA 1 m/s.
19. nóvember 2013

Rannsókn um grunnvatnsfylltar gjár á Íslandi

Sumarið 2013 hófu meistaranemarnir Jónína Herdís Ólafsdóttir og Jóhann Garðar Þorbjörnsson rannsóknir á grunnvatnsfylltum gjám á Íslandi. Leiðbeinendur þeirra eru Bjarni Kristófer Kristjánsson prófessor við Háskólann á Hólum og Jón S. Ólafsson sérfræðingur hjá Veiðimálastofnun. Fyrir verkefnið hlaut Jónína styrk frá National Geographic Society. Verkefnið var einnig styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og veitti þjóðgarðurinn á Þingvöllum aðstöðu og leyfi til köfunar í gjánum á Þingvöllum.

Jónína og Jóhann unnu að sýnatöku í gjánum síðastliðið sumar. Daniel Govoni, Gísli Arnar Guðmundsson, Kjartan Guðmundsson, Paul Heinerth, Siobhan White og Valgeir Pétursson aðstoðuðu við sýnatöku en öll sýnin voru tekin með köfun. Gjár voru skoðaðar á Þingvöllum og í Kelduhverfi og voru þau í sumum tilvikum fyrstu kafarnir sem heimsóttu gjárnar. Til að mynda fannst áður óþekkt gjá á Þingvöllum meðan á verkefninu stóð. Þar reyndist vera næstdýpsta gjá landsins og einnig sú eina sem er alfarið neðanjarðar. Næsta sumar koma Jónína og Jóhann til með að halda áfram sýnatöku. Fyrirhugað er að skoða fleiri gjár og að safna betri gögnum um umhverfisbreytur.

Jónína hefur lengi lagt stund á köfun í gjánum á Þingvöllum. Markmið hennar er að lýsa líffræðilegum fjölbreytileika þeirra með áherslu á smádýralíf og reyna að skýra fjölbreytileikann með umhverfisbreytum og tengja ljósskilyrðum. Auk þess hefur hún áhuga á að kortleggja gjárnar. Jóhann hefur áhuga á umhverfislegum áhrifum ferðamennsku og stefnir á að kanna hvort rask hafi orðið á lífríki gjánnar Silfru á Þingvöllum í kjölfar aukinnar köfunarferðamennsku þar undanfarin ár. Samanburður verður gerður milli sýna úr Silfru og sýna úr sambærilegum gjám á Þingvallasvæðinu sem eru ósnortnar, með áherslu á þéttleika og fjölbreytileika hryggleysingja og þörunga.  

Verkefnið hefur nú þegar fengið umfjöllun á vefmiðlum National Geographic sem sjá má hér.