Veðrið á Þingvöllum °C m/s.
4. nóvember 2019

Rjúpnaveiði 2019

Rjúpnaveiðin er hafin og leggja margir leið sína í gegnum þjóðgarðinn og veiða síðan á mörkum hans bæði til norðurs á Uxahryggi og Kaldadal en einnig austur fyrir þjóðgarðinn.

Starfsfólk þjóðgarðsins sinnir eftirliti með þjóðgarðinum og fer reglulega um þjóðgarðinn. Þá sinnir lögreglan einnig eftirliti um svæðið.     

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum starfar á grundvelli laga nr. 47/2004 og þar koma mörk þjóðgarðsins fram í fyrstu grein:
Að sunnan eru mörkin um línu sem dregin er úr landamerkjum jarðanna Arnarfells og  Mjóaness á Langatanga, vestur yfir vatnið og í Grjótnes sem er á landamerkjum jarðanna  Skálabrekku og Kárastaða. Þaðan ráða landamerki þeirra jarða að landamerkjum Selkots og  síðan landamerki Selkots og Kárastaða að sýslumörkum Árnessýslu og Kjósarsýslu á  Há-Kili. Þaðan ráða sýslumörk til norðausturs til upptaka Öxarár við Myrkavatn og í  hátind Háusúlu og þaðan bein stefna til austurs í efsta tind Gatfells. Þaðan liggja  mörkin til suðurs í Hrafnabjörg og með austur- og suðurmörkum jarðarinnar Gjábakka og  með austurmörkum jarðarinnar Arnarfells í Langatanga.  

Samkvæmt 11.grein reglugerðar nr. 848/2005 um þjóðgarðinn á Þingvöllum er öll skotveiði  bönnuð innan marka þjóðgarðsins.

Hér má sækja hnitsett kort til að glöggva sig betur á mörkum þjóðgarðsins áður en lagt  er af stað til fjalla. Map datum fyrir er WGS 84.

Hér er svo kort sem má sækja og nota í í gegnum appið Avenza maps.

Á kortavefsjá þjóðgarðsins má glöggva sig á mörkum þjóðgarðsins og ýmsum kennileitum.

Almennt má segja:

Til að komast á veiðislóð norðan við þjóðgarðinn þarf að fara nokkuð norður fyrir Sandkluftavatn. Allt svæðið vestan Almannagjár, Skógarhólar, Gagnheiði, Svartagil, hlíðar Ármannsfells, Botnssúlna og Öxarárdalur er innan þjóðgarðs og því ekki veiðisvæði. Lokað er fyrir akstur um Öxarárdal upp að Leggjarbrjót.

Fyrir austan þjóðgarð þarf að fara alveg austur að jeppaslóðanum upp að Hrafnabjörgum við Dímon/Tintron.  Til að komast upp að Tintron, Bragabót og austur fyrir Hrafnabjörg og austur á Laugarvatnsvelli er bent á nýja tengingu við Kringlumýri og á Laugarvatnsvöllum miðja leið yfir á Laugarvatn á hinum nýja Lyngdalsheiðarvegi.  Einnig er hægt að beygja inn á gamla Gjábakkaveginn við Gjábakka en möl var lögð ofan í vegstæðið eftir breytingar eftir að nýr Lyngdalsheiðarvegur var opnaður.  

Vinsamlegast athugið að girðingin vestan við Almannagjá og upp með Ármannsfelli og girðingin austan við Gjábakka eru EKKI mörk þjóðgarðsins.

Sunnan við mörkin að austanverðu eru einkalönd þar sem rjúpnaveiði er bönnuð þannig að ekki er hægt að ganga til suðurs til veiða.