Veðrið á Þingvöllum 11,4°C NV 1 m/ s.

Samtök heimsminjastaða á Norðurlöndum stofnuð á Þingvöllum.

Frá árinu 1995 hafa stjórnendur heimsminjastaða á Norðurlöndunum komið árlega saman til fundar  til að ræða um stjórnun og starfsemi heimsminjastaða.  Ráðstefnan var að þessu sinni á Íslandi og komu um 100 gestir til ráðstefnunnar frá öllum Norðurlöndunum.  Ráðstefnan var haldin í Reykjavík en ferðir voru farnar til Vestmannaeyja vegna Surtseyjar og til Þingvalla. Báðir staðir eru á heimsminjalista UNESCO.

Hluti ráðstefnugesta fór í  tveggja daga ferðalag fyrir ráðstefnuna yfir Fjallabak í Landmannalaugar og að Kirkjubæjarklaustri og svo þaðan aftur til Reykjavíkur.  Í þeirri ferð var fjallað um nokkra þá staði sem eru á yfirlitsskrá yfir heimsminjar m.a. Torfajökulsvæðið og Vatnajökulsþjóðgarð en einnig um þær áskoranir sem fjölgun ferðamanna hefur haft á Íslandi undanfarin ár.

Ráðstefnunni lauk föstudaginn 23.september með athöfn á Þingvöllum þar sem stofnuð voru formlega samtök heimsminjastaða á Norðurlöndum. Athöfnin fór fram í táknrænni útgáfu af hinni fornu Lögréttu sem útbúin var á Neðri Völlum.  Unnið hefur verið að undirbúningi samtakanna um nokkurt skeið.  Aðilar að samtökunum verða  fulltrúar heimsminjastaða á Norðurlöndunum en 40 heimsminjar eru skráðar á Norðurlöndum og fleiri tilnefningar í undirbúningi. Hin nýju samtök munu vinna að faglegu samstarfi staðanna og vera vettvangur til að vinna að kynningu og framgangi heimsminjastaðanna.