Veðrið á Þingvöllum 5,3°C S 7 m/s.
30. desember 2013

Snjómokstri hætt vegna fjölda ferðamanna í Almannagjá.

Starfsfólk þjóðgarðsins sem var við snjómokstur efst í Almannagjá þurfti frá að hverfa seinnipartinn í dag vegna fjölda ferðamanna. Svo mikill og stöðugur var straumur ferðamanna að lítið snjómoksturstæki sem var við vinnu komst ekki leiðar sinnar og tafði umferð fólksins.

Þurfti því að gera klukkustundar hlé á vinnunni til þess að greiða fyrir umferðinni um gjána. Þarna voru á ferð hópar ferðamanna sem komnir eru til Íslands að njóta hátíðarhalda áramótanna.  Um tíma voru 25 rútur á bílastæðinu við gestastofuna á Hakinu og nokkuð af bílaleigubílum og má ætla að um 1000 manns hafi farið um Almannagjá á einni klukkustund.  Ferðamenn voru af öllum þjóðarbrotum og mátti heyra fjömörg og framandi tungumál óma í Almannagjá. Ferðafólkið var misjafnlega vant þeim vetraraðstæðum sem ríkja inn til landsins á þessum árstíma.

Síðustu ár hefur vetrarþjónusta verið aukin í þjóðgarðinum á Þingvöllum í takt við fjölgun ferðamanna.  Gestastofan og salernin við Hakið eru opin alla daga ársins og snjómokstur hefur aukist. Í haust var ákveðið að auka snjómoksturinn enn frekar og eru nú helstu gönguleiðir frá Almannagjá að Silfru ruddar og sandaðar flesta daga.  Þrátt fyrir að grannt sé fylgst með veðurspám getur oft verið erfitt að bregðast við en aðstæður geta breyst á hverjum degi þegar skiptist á snjókoma, þíða og frost.  Því er vissara að brýna fyrir ferðamönnum að fara með gát þegar farið er um þingstaðinn forna.