Veðrið á Þingvöllum -2,9°C SSV 1 m/ s.

Starfsfólki misboðið

Starfsfólki í þjóðgarðinum á Þingvöllum er misboðið vegna frásagnar Fréttablaðsins og umfjöllunar í morgunþáttum Bylgjunar og RÚV í morgun.

Í þjóðgarðinum á Þingvöllum eru 56 salerni.  Af þeim eru 32 salerni á því svæði sem kallast þinghelgin þar sem flestir ferðamenn fara um. Flest þeirra eru á Hakinu fyrsta viðkomustað flestra ferðamanna á Þingvöllum.  Fyrir utan þinghelgina eru 3 salerni í Vatnskoti niður við vatn og 21 salerni í og við tjaldstæðið hjá  Þjónustumiðstöðinni. Öll salernin eru reglulega yfirfarin af starfsfólki þjóðgarðsins og er þeim mjög vel sinnt. Ásamt þessu fara landverðir og starfsmenn reglulega yfir þau svæði sem má telja afsíðis þ.e. trjárunna, skógarlundi og hreinsa þar upp eftir gesti garðsins. Frá helstu bílastæðum í þinghelginni er rétt um 5 mínútna akstur á salerni í þjónustumiðstöðinni. Lengst er á milli salerna ef gestur í þinghelginni er staddur við Furulund en þá eru 1200 metrar til norðurs að klósettum við tjaldstæðin eða 1300 metrar að kömrunum við Valhöll. Hvort tveggja er því í um 20 mínútna göngufjarlægð. Yfirleitt hafa ferðamenn þó fyrirvara á og nýta salerni þegar þeir fara fram hjá þeim.

Þinghelgin er það svæði sem ferðamenn heimsækja mest á Þingvöllum og teygir heimsóknasvæði ferðamanns nokkuð víða. Bygging varanlegra salerna og byggingar þeim tengdum er skipulagsskyld og er gert ráð fyrir því að bæta salernisaðstöðu í norðurhluta þinghelgarinnar þegar endurskoðun stefnumótunar liggur fyrir og forsendur fyrir framtíðarflæði ferðamanna um þjóðgarðinn liggja fyrir. Í þjóðgarðinum þarf að huga vel að fráveitu þar sem um Þingvallavatn gilda lög um verndun vatnasviðs Þingvallavatns sem gerir mun ríkari kröfur til fráveitumála þess vegna er nú mest allri seyru ekið í burtu úr þjóðgarðinum og fargað.  Einnig þarf að gæta vel að ásýnd þinghelgarinnar ekki síst í nálægð Þingvallakirkju og Þingvallabæjar.  Óhugsandi er að setja þar niður áberandi salernishús eða bráðabirgðakamra.

Það er ljóst að nálægð við salerni breytir ekki öllum ósiðum sumra ferðamanna sem víla ekki fyrir sér að gera þarfir sínar utandyra.  Á salernunum á Hakinu er innheimt 200 kr gjald en þrátt fyrir að þar sé hægt að ganga að hreinum og góðum salernum eru iðulega ferðamenn sem ekki vilja greiða og ganga þess í stað út fyrir og gera þarfir sínar á húsvegginn í allra augsýn. Þurfti nýlega að girða þar af til hindra að sú hegðan héldi áfram. Ýmsir leiðsögumenn hafa einnig hvatt gesti sína til að greiða ekki fyrir salerni og skammast í starfsfólki þjóðgarðsins fyrir að sinna vinnu sinni. Í þjónustumiðstöðinni á Leirum eru 21 salerni þar sem ekki er tekið gjald fyrir en þrátt fyrir það lenda starfsmenn iðulega í því að ferðamenn fari bak við byggingar þjóðgarðsins og létti á sér fyrir framan þá og aðra. Engin leið er að koma í veg fyrir sóðaskap slíks fólks hversu mörg sem salernin eru.

Starfsfólk þjóðgarðsins leggur metnað sinn í að sinna þjóðgarðinum vel og aðstoða gesti og gangandi í heimsókn á Þingvöllum.  Í vor var veitt rausnarleg fjárveiting til þjóðgarðsins til að bæta þjónustu og auka landvörslu í þjóðgarðinum og er unnið að kappi að mörgum verkefnum í sumar á því sviði.  Meðal annars hafa 17 nýjir og vandaðir vegvísar verið settir upp í þinghelginni sem hjálpa ferðamönnum að komast leiðar sinnar.

Starfsfólk þjóðgarðsins á Þingvöllum