Þjónustumiðstöðin á Leirum opnar

Mánudaginn fjórða maí opnar þjónustumiðstöð þjóðgarðsins á Leirum. Samfara því mun tjaldstæðið næst þjónustumiðstöðinni opna, það er gestir komast í rafmagn, opnað verður fyrir útivaska og sturtuaðstaðan opnar. Salernin hafa verið opin í allan vetur og heldur það því áfram. 
Eftir því sem líður fram á sumarið munu fleiri svæði, eins og Syðri-Leirar, Fagrabrekka og Vatnskot opna en bíða þarf meðan næturfrost hættir að láta mikið á sér kræla.

Opnunartími þjónustumiðstöðvarinnar er frá 09:00-18:00, þar má kaupa tjald- og veiðileyfi en jafnframt létta hressingu og eitthvað til að snæða.

Þjóðgarðurinn fylgir eftir leiðbeiningum Landlæknis hvað varðar hreinlæti og annan umbúnað á tjaldstæðum þjóðgarðsins.

Síðar í vikunni mun gestastofa á Haki, við bílastæðið P1 opna, en þó fyrst um sinn eingöngu upplýsingahluti og sýning gestastofunnar.