Veðrið á Þingvöllum -8,7°C SV 1 m/s.

Þriðjudagskvöld á Þingvöllum hefjast 2.júní

Tónlistarhátíðin “ Þriðjudagskvöld í Þingvallakirkju “ hefst 2. júní n.k. Þetta er níunda starfsár tónleikaraðarinnar sem haldin er í júnímánuði í kirkjunni smáu en fögru á þingstaðnum forna.

Fyrsti hópurinn sem kemur fram 2. júní er “ Kársnestríóið " en það skipa þær Guðrún Sigríður Birgisdóttir flauta, Svava Bernharðsdóttir víóla og Elísabet Waage harpa. Þær munu leika tónlist allt frá Bach til Þorkels Sigurbjörnssonar.

Þriðjudaginn 9. júní býður “ Duo Custos “, þær Jóhanna Halldórsdóttir alt og Helga Aðalheiður Jónsdóttir blokkflauta upp á tónleika með tónlist 14. aldar tónskáldsins Guillaume de Machaut.

Viku seinna eða þ. 16. júní koma fiðluleikararnir Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer sem saman mynda “ Duo Landon “ og flytja fjölbreytta efnisskrá frá ýmsum tímum.

23. júní ómar flautuleikur þeirra Berglindar Stefánsdóttur og Hallfríðar Ólafsdóttur í kirkjunni ásamt sellóleikaranum Sigurgeiri Agnarssyni.

Á fimmtu og síðustu tónleikunum þ. 30. júní koma góðir gestir frá Bretlandi, þau Amy Cardigan fiðla og Michael Higgins orgel og laða fram fagra tóna sem hæfa Þingvallakirkju ásamt stjórnanda hátíðarinnar, Einari Jóhannessyni klarínettuleikara.

Flytjendur tónleikanna kynna sjálfir verkin og rabba við tónleikagesti. Tónleikarnir hefjast kl 20.00 og aðgangur er ókeypis að venju. Gestir eru beðnir að leggja bílum sínum við Flosagjá og ganga til kirkju.