Veðrið á Þingvöllum 9,6°C SSA 8 m/ s.

Þriðjudagskvöld í Þingvallakirkju

Tónlistarhátíðin " Þriðjudagskvöld í Þingvallakirkju " verður haldin í Þingvallakirkju í 10. og síðasta sinn næstu 5 vikur og verða fyrstu tónleikarnir þriðjudaginn 7. júní n.k.


7. júní stendur miðaldasönghópurinn Voces Thules í kórnum og flytur efni allt frá Sturlungu til síðari tíma með skrautlegum hljóðfæraslætti.


14. júní koma þær stöllur Laufey Sigurðardóttir og Elísabet Waage og flytja þjóðlega dagskrá fyrir fiðlu og hörpu, m.a. verkið "Árferð" eftir Báru Grímsdóttur sem byggt er á íslenskum þjóðlögum um árstíðirnar fjórar.


21. júní fylla hjónin Herdís Anna Jónsdóttir og Steef van Oosterhout kirkjuna af strengja- og ásláttarhljóðfærum og reiða fram heillandi efnisskrá af leiknum og sungnum íslenskum lögum.


28. júní kemur listrænn stjórnandi hátíðarinnar Einar Jóhannesson fram með uppáhaldsstöllum sínum í Tríói Vei, þeim Ingibjörgu Guðjónsdóttur sópran og Valgerði Andrésdóttur orgelleikara og flytja þau nokkrar vel valdar söngperlur.


5. júli sest snillingurinn og útlaginn Arnaldur Arnarson með gítarinn sinn, hljóðfæri sem hljómar alltaf unaðslega í litlu kirkjunni og flytur víðfeðma efnisskrá m.a. eftir Toru Takemitsu og Þorstein Hauksson auk suðrænna tóna.

Flytjendur kynna sjálfir verkin og rabba við tónleikagesti. Tónleikarnir hefjast kl 20.00 og standa yfir í tæpa klukkustund. Ókeypis er inn en frjáls framlög vel þegin.


Gestir eru beðnir um að leggja bílum sínum við Flosagjá eða á Valhallarreitnum og ganga til kirkju.