Veðrið á Þingvöllum 13,4°C SSV 3 m/s.

Tilkynning frá þjóðgarðinum á Þingvöllum: Lokun Silfru í þjóðgarðinum aflétt.

Fyrirmæli vegna köfunar í þjóðgarðinum á Þingvöllum hafa verið hert og öryggiskröfur auknar.

Á fundum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, þjóðgarðsins á Þingvöllum og Samgöngustofu um helgina voru fulltrúum köfunarfyrirtækja kynnt þessi hertu fyrirmæli og náðist góð samstaða með aðilum um efni og framkvæmd þeirra.

Meginefni breyttra fyrirmæla er fækkun farþega á hvern leiðsögumann og auknar kröfur til þeirra sem hyggjast kafa og yfirborðskafa í Silfru. Auknar kröfur beinast m.a. að þurrbúningaréttindum kafara, staðfestingu á hæfni og getu kafara, heilbrigðiskröfum gesta, aukinni ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja,  auk þess sem köfun í blautbúningum verður óheimil.

Jafnframt verður unnið að aðgangsstýringu í Silfru. Áfram munu þessir aðilar vinna í samstarfi að því að bæta öryggi og aðbúnað gesta í Silfru. Í ljósi þessa telur þjóðgarðurinn á Þingvöllum ekki þörf lengri lokunar Silfru en tilkynnt hafði verið.