Veðrið á Þingvöllum -5,2°C Logn 0 m/ s.

Umferðarmet slegið á Þingvöllum

Gífurleg umferð var um þjóðgarðinn á Þingvöllum um síðustu hvítasunnuhelgi og voru þá umferðarmet slegin þar og á vegum sem tengjast þjóðgarðinum. Frá föstudeginum til mánudags þessarar löngu góðviðrishelgar fóru samtals um 11 þúsund bílar gegnum þjóðgarðinn. Venja er að miða við að 2.6 manns séu í hverjum bíl og eru þar með bæði rútur og smærri bílar. Samkvæmt því hafa um 29 þúsund manns ekið í um þjóðarðinn á fyrrgreindum tíma. Flestir voru bílarnir á hvítasunnudag 3.442 og er það umferðarmet. Með nokkurri óvissu má við að 12 sekúndur hafi skilið að bíla að meðaltali þennan dag og sennilega var bílalestin enn þéttari þegar mest var. Heilu bílaflotarnir fóru um og var þar bíll við bíla svo þétt sem verða mátti. Bílafjöldinn var enn meiri á Mosfellsheiði þar sem vegurinn liggur milli höfuðborgarsvæðisins og Þingvalla. Umferðarmælingar þessar gerir Vegagerðin með teljurum á völdum stöðum.

Þessi feiknarlega umferð er í samræmi við það mikla álag á þjóðgarðinn sem eykst ár frá ári. Eftirsóknarvert er að sem flestir njóti fegurðar og sögu Þingvalla en sennilega er stærstur hluti þessarar umferðar fyrst og fremst akstur í gegnum þjóðgarðinn enda er vegurinn um Lyngdalsheiðarveg mikil samgöngubót milli uppsveita Árnessýslu og höfuðborgarsvæðisins. Því er ekki að leyna að kyrrðin sem áður einkenndi Þingvelli og er höfuðprýði hvers þjóðgarðs er horfin í umferðargný. Þar við bætist að slysahætta er mikil á örmjóum og slitnum veginum í gegnum þjóðgarðinn. Þetta kom berlega í ljós um hvítasunnuhelgina þegar gangandi fólk gekk yfir veginn þar sem gönguleiðir í hrauninu liggja þvert yfir. Um helgina var umferð hestamanna mikil með fjölda hrossa enda svokallaðir sleppitúrar margir á ferð.

Flestir ökumenn virða löglegan umferðarhraða eða því sem næst en þó er algengt að menn aki á 70 til 90 km hraða á veginum sem ekki er aðeins mjór heldur eru beygjur margar, sjónlínur stuttar, vegkantar brotnir og nasbitnir og ekkert nema hraun sem tekur við þeim bílum sem lenda út af. Þetta fékk bílstjóri á litlum vöruflutningabíla að reyna þegar hraðskreiður og breiður jeppi hrakti hann út af. Landverðir þjóðgarðsins og aðvífandi vegfarendur náðu bílnum upp og fékk bílstjórinn aðhlynningu í starfsmannahúsi þjóðgarðsins.

Gera verður ráð fyrir að umferðin um þjóðgarðinn eigi enn eftir að aukast með auknum fjölda ferðamanna til landsins og sennilega munu samgöngubætur á Uxahryggjaleið milli Borgarfjarðar og Þingvalla laða fleiri ferðamenn að þessu fagra og sögufræga svæði.