Veðrið á Þingvöllum °C m/s.
1. júlí 2020

Útsýnispallur opnaður við Hrafnagjá

Í dag opnuðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Vilhjálmur Árnason varaformaður Þingvallanefndar og Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður á Þingvöllum fyrir aðgengi að nýjum útsýnispalli við Hrafnagjá í austanverðum þjóðgarðinum á Þingvöllum.  Útsýnisstaðurinn er sérstaklega glæsilegur og útsýnipallurinn veglega byggður og af honum blasir við nýtt sjónarhorn yfir sigdældina frá austri til vesturs.   Blíðaskaparveður var við athöfina og útsýnið því stórfenglegt yfir sigdældina til vesturs. 

Landslag ehf  hannaði mannvirkið en smíðin og framkvæmdin var í höndum Andra Þórs Gestssonar húsasmíðameistara og Kolbeins Sveinbjörnssonar verktaka á Heiðarási.  Kostnaður við framkvæmdina nam um 19  m.kr og er verkefnið á verkefnaáætlun um landsáætlun um uppbyggingu innviða.

Að lokinni opnun á útsýnispalli við Hrafnagjá var farið í gestastofu á Haknu þar sem kynning var á fyrstu hugmyndum í deiliskipulagi á mest heimsótta svæði þjóðgarðsins sem nær frá Valhallarreitnum að þjónustumiðstöð á Leirum.  Meginmarkmið í deiliskipulagi er að draga úr umferð neðan við Almannagjá en skipuleggja megin aðkomu og bilastæði ofan við og meðal annars eru komnar fram  hugmyndir um nýja aðkomu að þingstaðnum forna um nýja gönguleið fram af brún Almannagjár norðan við Öxarárfoss. 

Þessi kynning var eingöngu um grunnhugmyndir sem fram eru komnar við vinnu deiliskipulagsins en þær verða kynntar betur og leitað frekara samráðs og álits hagaðila í haust og kynnt frekar á opinberum vettvangi.