Veðrið á Þingvöllum 9,4°C SSA 5 m/ s.

Vatnajökull á heimsminjaskrá í dag.

Vatnajökull á heimsminjaskrá UNESCO

Á 43.fundi heimsminjaráðs UNESCO sem stendur nú yfir í Baku í Azerbaijan var samþykkt í morgun að setja stærstan hluta Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskránna.    Tilnefningin sem send var inn í janúar 2018 var samþykkt og með henni verður suðurhluti Vatnajökulsþjóðgarði hluti af heimsminjaskránni sem náttúruverðmæti.  Í tilnefningunni er áhersla lögð á rekbeltið, heita reitinn undir landinu og eldstöðvakerfi í gosbeltunum ásamt samspili elds og íss sem einstakt er talið á heimsvísu.

Undirbúningur vegna tilnefningarinnar Vatnajökulsþjóðgarðs hófst 2016 en þá var sérstakri verkefnastjórn falið að halda utan um og stýra vinnu við tilnefninguna í samræmi við leiðbeiningareglur UNESCO. Verkefnið var unnið í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð og samráð haft við sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum.  

Skráning Vatnajökuls á heimsminjaskrá er gríðarlega mikilvægt skref í verndun og viðurkenningu svæðisins á heimsvísu.  Staðir á heimsminjaskránni draga gjarnan að aukinn fjölda ferðamanna þannig að mikilvægi viðkomandi staða eykst í þjóðhagslegu tilliti. Heimsminjaskráin er afar öflugt tæki til minja- og náttúruverndar ekki síður en til uppbyggingar vandaðrar ferðaþjónustu í hverju landi.

Þingvellir voru skráðir á heimsminjaskrá árið 2004 sem menningarminjar og Surtsey árið 2008 sem náttúruminjar. 

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum fagnar skráningunni og óskar öllum sem stóðu að skráningunni innilega til hamingju með árangurinn og hlakkar til frekara samstarfs á sviði heimsminja með starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðs.