Veðrið á Þingvöllum 12,1°C NV 4 m/ s.

Veiði í Þingvallvatni

Vegna veiða í Þingvallavatni innan þjóðgarðsins á Þingvöllum

 

Nokkuð hefur borið á því í vor að veiðimenn séu við veiðar í Þingvallavatni, án leyfis eða með búnað sem ekki er heimilaður. 

 

Veiðar í Þingvallavatni innan þjóðgarðsins á Þingvöllum eru alfarið óheimilar nema aflað sé tilskilins leyfis og fylgt sé reglum Þingvallanefndar sem settar hafa verið á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Samkvæmt reglunum er óheimilt að stunda veiðar innan þjóðgarðsins á hverskonar bátum eða flotum.

 

Gildandi reglur eru aðgengilegar á vefsíðu þjóðgarðsins www.thingvellir.is og eru eftirfarandi:

 

Veiðitímabilið er frá 20. apríl til 15. september. Frá 20. apríl til 1. júní er eingöngu heimilt að veiða á flugu og skal öllum urriða sleppt á þeim tíma. Veiðibann er í Ólafsdrætti frá og með 1. júlí til 1. september vegna hrygningar kuðungableikjunnar. Frá 1.júní er heimilt að nota flugu, spún og maðk sem agn við veiðar í Þingvallavatni, innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Notkun annars agns en hér greinir er alfarið óheimil. Stangveiði má aðeins stunda frá landi og notkun hverskonar báta eða flota er bönnuð.

 

Vakin er athygli á því að framangreindar reglur Þingvallanefndar gilda innan marka þjóðgarðsins óháð því hvar veiðileyfi eru keypt til þess að stunda fiskveiðar í Þingvallvatni.

 

Landverðir og hópur sjálfboðaliðar úr röðum veiðimanna sinna veiðieftirliti.  Eftirlit með veiði verður aukið nú í vor og meðal annars verður veiðivarsla á bát á vegum þjóðgarðins innan þjóðgarðsins en annarsstaðar á Þingvallavatni á vegum Veiðifélags Þingvallavatns.

 

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum varða brot gegn ofangreindum reglum sektum eða fangelsi ef sakir eru miklar.