Veðrið á Þingvöllum 8,4°C N 7 m/ s.

Yfirlit yfir vöktun Þingvallavatns - ný skýrsla

Árið 2007 hófst vöktunarverkefni á lífríki og vatnsgæðum Þingvallavatns á vegum Umhverfisstofnunar, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Þjóðgarðsins á Þingvöllum.

Um er að ræða árlega sýnatöku og mælingar og er vöktuninni skipt í þrjá verkþætti. Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur séð um efna- og eðlisþætti í írennsli og frárennsli Þingvallavatns, Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur séð um lífríki og efna- og eðlisþætti í vatnsbol vatnsins og Veiðimálastofnun hefur ásamt Náttúrufræðistofunni séð um rannsóknir á murtu.

Litið er á vöktunina sem mikilvægt tæki til að stuðla að verndun á vistkerfi Þingvallavatns en meginmarkmið vöktunarinnar er að kortleggja ástand og breytingar sem kunna að verða á lífríki og efna- og eðlisþáttum vegna hugsanlegra álagsþátta jafnt af manna völdum sem náttúrunnar.

Nú hefur Náttúrufræðistofa Kópavogs gefið út skýrslu með helstu niðurstöðum eftir fyrstu fimm ár vöktunar Þingvallavatns.  Meginniðurstöður eru reifaðar og bornar saman við eldri gögn og m.a. rýnt í áður óbirt vatnshitagögn frá Steingrímsstöð.

Vöktunin staðfestir einnig að marktækar breytingar hafa átt sér stað í lífríki og efna- og eðlisþáttum Þingvallavatns undanfarna áratugi. Þingvallavatn hefur hlýnað, styrkur uppleysts nítrats (NO3) aukist í írennslinu, magn þörungasvifs (blaðgrænu-a) aukist í vatnsbolnum og rýni vatnsins minnkað í kjölfarið.

Nokkrar tillögur eru kynntar til úrbóta í vöktunarverkefninu. Einkum er brýnt að rannsaka kransþörungabeltið vegna minnkandi rýnis í vatninu, kanna setmyndun m.t.t. ákomu efna og fjölga mælingum á næringarefnum í írennslinu til að varpa ljósi á árstíðabreytileika.

Hér má sækja skýrsluna á pdf.sniði.