Hvernig kemst ég til Þingvalla?

Leiðir liggja til Þingvalla úr mörgum áttum. Nánari upplýsingar um færð og vegi má nálgast hjá Vegagerðinni.

Frá Reykjavik:
Akið þjóðveg 1 í gegnum Mosfellsbæ. Beygið til hægri á hringtorgi inn á veg 36 til Þingvalla. Þessi leið er oftast ekin til Þingvalla og er hún rudd flesta daga yfir veturinn.

Yfir sumartímann er hægt að beygja af Suðurlandsveginum (1) fyrir ofan Geitháls inn á Hafravatnsveg (431) og halda áfram á Nesjavallaleið (435) yfir Hengil og niður að Nesjavöllum. Á góðviðrisdögum er stórkostlegt útsýni yfir Þingvallavatn og fjallahringinn á þessari leið þegar ekið yfir Hengil. Þegar komið er niður af Hengli er beygt til vinstri inn á Grafningsveg (360) og eknir um 11 km þar til komið á Þingvallaveg (36). Þar er beygt til hægri og Þingvellir blasa við eftir 8 km. Hafa skal í huga að engin vetrarþjónusta er á þessari leið og því eingöngu fær á sumrin.

Frá Geysi og Gullfossi:
Akið veg (35) og (37) að Laugarvatni. Við hringtorgið í jaðri Laugarvatns akið til hægri til Þingvalla inn á veg 365 sem breytist síðar í 36.

Úr Borgarfirði:
Hægt er að aka Lundareykjadal um Uxahryggi til Þingvalla.Úr Húsafelli er fjallvegur 550 um Kaldadal til Þingvalla. Athugið að engin vetrarþjónusta er á þessum leiðum og því eru þær eingöngu færar yfir sumartímann.