Njáluferð tækniskólans

Árlega koma til Þingvalla hinir ýmsu skólar og fá hjá þjóðgarðinum móttöku. Umræðuefnið getur verið allt frá almennri sögu og náttúru staðarins yfir í stýringu og skipulag þjóðgarðsins. 

Sérstök ánægja er þó að fá nemendur í íslensku sem eru að lesa einhverja íslendingasöguna og rjóminn í þeirri tunnu er vitaskuld Brennu-Njálssaga. Nemendur Tækniskólans eru reglulegir heimsóknagestir til Þingvalla þegar þau taka Njáluáfanga í skólanum.

 
Þingvellir koma óvíða jafn mikið við sögu í nokkurri íslendingasagnanna og Njálu. Senur sögunnar lifna þegar komið er á hinn gamla þingstað. Nemendur voru vel með á nótunum þegar ræddar voru einstaka senur eins og bónganga Njálssona milli búða og flótti Flosa frá fimmtardómi og yfir Flosagjá.

Nemendur og kennarar héldu svo leið sinni áfram á frekari Njáluslóðir á Suðurlandi.