Brún er heiti á aflíðandi hækkun í Þingvallahrauni austan Skógarkots. Neðst og vestast kallast hún Lágbrún og hefst frá Mosalág suður meðfram Stekkjarvörðubölum niður að Vatnsviki. Efst kallast hún Hábrún og er hækkunin um 40 metrar. Þar er á einum stað Hábrúnarklettur. Brún þótti þrautastaður þegar sauðbeit snerti yfir vetrartímann og var fé oft rekið þangað til beitar, jafnt af hraunbúum sem og úr nærliggjandi sveitum, s.s. úr Laugardal. Norðan Mosalágar er hækkunin lægri og meira aflíðandi, kallast hún þá Brúnir.