Bruni er svæði í Bláskógum suðaustur af Hrauntúni. Ásgeir Jónasson úr Hrauntúni segir það hafa verið norðan Flekkuhóls en Pétur J. Jóhannsson úr Skógarkoti telur það hafa verið vestan hans, við Gaphæðagötu. Hann lýsir Bruna svo:

„Á áratugnum milli 1860 og 1870 (að mig minnir 1863) fékk bóndinn á Brúsastöðum leyfi til þess að gera til kola í Þingvallaskógi. Hann var með reiðingshest og á reiðingnum var kerald, sem í var glóð er ætluð var til kolagerðarinnar. Þegar hann kom á staðinn sleppti hann hestinum, án þess að taka glóðarkeraldið af reiðingnum og fór að kurla viðinn til kolagerðarinnar. Innan tíðar hafði glóðin brennt gat á botn keraldsins og kveikti í reiðingnum á hestinum, sem fældist samstundis. Við það dreifðist glóðin úr keraldinu og kveikti í skóginum. Ekki hef ég heyrt um það, hvort bóndinn gat bjargað hestinum frá bruna, en nokkuð stórt skógarstykki brann. Þetta brunasvæði er vestan við Fremri-Gaphæðin[a], beggja vegna við Gaphæðagötuna, sem liggur frá Skógarkoti og inn í Raftahlíð. Svæðið hefur síðan verið kallað BRUNI. Þegar ég átti heima í Skógarkoti, var þetta brunasvæði skóglaust með öllu. Á svona brunasvæðum vex kjarnmikið gras, sem skepnur sækja mikið í. Þótt birkisprotar hafi vaxið frá rótum trjánna, sem brunnu, voru þær étnar jafnóðum. Um 1950 var Þjóðgarðurinn búinn að vera að mestu friðaður fyrir ágangi búfjár í tuttugu ár og þá var birkið á brunasvæðinu verulega farið að vaxa, og nú er ekki hægt að sjá eftir 50 ára friðun neinn mun á BRUNANUM og umhverfi hans.“