Hrauntúnsgata

Google Maps

Hrauntúnsgata er leið milli Hrauntúns og Skógarkots. Leiðin var innansveitarleið, gengin af bændum í heimsóknum og erindagjörðum. Leiðin hefst við suðurhluta túngarðsins í Hrauntúni og liggur um mosabala og skógareyður suður eftir Brúnum og Hrútaklettum. Gengið er yfir Þingvallaveg, sem liggur yfir götuna, um Djúpudali og endar að lokum við stöðulinn við norðurenda túnsgarðsins hjá Skógarkoti.

Hrauntúnsgata er þröng og grýtt á köflum en allgreinileg og hefur verið stikuð af starfsfólki þjóðgarðsins. Gömul varða er við Miðbrún. Leiðin er um 2,3 kílómetrar og auðveld yfirferðar og tekur um 40 mínútur að ganga í heild sinni. Hægt er að komast inn á miðja leið frá bílastæði á Þingvallavegi og ganga þaðan stikaða slóð vestur í átt að Hrauntúnsgötu.