Hryggir er hólaröð norðan Vatnskots sem snýr austur-vestur. Helga Símonardóttir Melsteð lýsir Hryggjum svohljóðandi í örnefnaskrá:

„Meðfram Skógarkotsgötunni, aðeins vestan við hana, rétt ofan við aðalveginn (þjóðveginn) eru klappir, kallaðar Hryggir (49), nafn með réttu. Þetta er mjög sérkennileg hraunmyndun, líkist hrygg og rifbeinum. Sprunga er í miðjunni (hryggurinn) og svo hafa myndazt eins og gárur með grunnum dældum, en þær líkjast rifbeinum. Þetta hefur myndazt, þegar hraunið rann, en ekki af vatni; vatn situr ekki í dældunum. Fínn mosi eða skófir (mjög þunnt lag) hafa myndazt á þessum klöppum. Fyrir slíkri hraunmyndun vottar aðeins uppi á Fjárhúshól (sjá síðar). Þar er svipaður steinn, en þar er allt miklu smærra í sniðum (einnig eru líkar myndanir í Almannagjá). A.J. segir Hryggi vera hólaröð, sem snúi austur og vestur. Norðaustur af Hryggjum, u.þ.b. 100 m, er Þuríðarvarða (50), hóll með sprungu, sem liggur frá suðvestri til norðausturs.“