Klukkustígsleið

Google Maps

Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti skrifar um Klukkustígsleiðina: „Klukkustígur á Hrafnagjá hefur verið önnur af tveimur aðalleiðum frá Þingvöllum yfir gjána til forna, hin var Hallstígur. Leiðin lá frá Þingvöllum fram hjá Skógarkoti og útaf þessum gamla hraunvegi (sem lá niður í Vatnsvik) hjá Ölkofrahól, framhjá gamla býlinu Þórhallastöðum, austur á milli Klukkuhóla, yfir Hábrún á Klukkustíg. Þaðan sunnan við Hellishæðina (norðvestan í henni eru sauðahellar sem Gjábakkabændur notuðu allt þar til þjóðgarðsgirðingin var færð út fyrir þá) og yfir Bæjargjá sunnan við Þúfhól. Síðan er stefnan tekin suður yfir Heiðargjá og yfir hana farið fyrir ofan neðsta Nikulásarhól. Eftir það liggur leiðin meðfram rótum Hrafnabjargarháls suður fyrir Stelpuhelli (sem er í Undirganginum. Það er eldrás, sem nær upp í Eldborg á Hrafnabjargarhálsi. Í rásinni eru hellar, jarðföll og brýr, en rásin hverfur á löngum köflum þótt trúlega sé hún undir jarðskorpunni). Skammt þar fyrir sunnan var komið á leiðina, sem lá frá Þingvöllum yfir Hrafnagjá á Hallstíg. Þarna hafa því verið krossgötur, því beint áfram suður yfir Skálholtshraun, lá hin gamla leið frá Þingvöllum til Skálholts, um austurrætur Lyngdalsheiðar. Hin leiðin austur yfir Hrafnabjargarháls um Barmaskarð, lá til Laugardals og liggur þar enn.“