Gæsaunga bjargað

Gæsaunginn heppni

Einar Hallgrímsson landvörður heldur á gæsaunganum sem hann og Jónas Guðnason komu til hjálpar. 

Það er nóg af grágæsum (Anser anser) á Þingvöllum þessa dagana. Sumar þeirra komu ungum sínum snemma á legg og eru þeir því margir orðnir nokkuð stórir. Önnur gæsapör virðast hafa tekið vorinu með ögn meiri ró og eru að fást við ungviðið nú um miðjan júlí.

Allajafna skiptir starfsfólk þjóðgarðsins sig ekki af gangi náttúrunnar innan þjóðgarðs. Þó getur það komið fyrir að ungar sem lenda í sjálfheldu fá meðaumkun og hjálp frá okkur innan þjóðgarðsins.

Landverðirnir Einar Hallgrímsson og Jónas Guðnason gengu fram á gæsaunga sem kom sér ekki úr einni gjánni á Þingvöllum. Gæsahópurinn sem hann tilheyrði var þá kominn nokkuð frá. Gerist það stundum að gæsaungar sem ekki komast upp úr gjá eða úr sjálfheldu eru skyldi eftir og ævidagar þeirra verða ekki langir.

Í þessari sögu heppna gæsaungans gekk þó allt betur. Landverðirnir náðu gæsaunganum upp á þurrt land og þegar þeir slepptu honum var honum, að því er virtist, vera vel tekið í sínum gamla hópi.