Jónas og UNESCO
Jónas og UNESCO
Dagurinn í dag er bæði fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar – Dagur íslenskrar tungu sem og stofndagur fræðslu-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna – UNESCO.
Samtökin fagna 80 ára afmæli. Þingvellir hafa verið heimsminjastaður síðan 2004.
UNESCO 80 ára
Í dag eru 80 ár frá stofnun samtakanna sem var komið á fót í kjölfar voðaverka seinni heimstyrjaldarinnar. Helsta markmið UNESCO er að stuðla að friði með því að byggja á skilningi í gegnum fræðslu, vísindi og menningu – hlekkur á breska UNESCO https://unesco.org.uk/news/unesco-at-80. Úr þessari vinnu spratt síðan sáttmálinn um verndun mikilvægra menningar- og náttúruminja árið 1972. Var það ekki síst vegna þess að slíkir staðir hafa verið og eru enn í dag oft skotmörk stríðandi aðila.
Skjaldbreiður var Jónasi oft hugleikið
Þingvellir
Hvort tveggja tengist hér á á Þingvöllum, það er Jónas Hallgrímsson og UNESCO. Framlag Jónasar Hallgrímssonar til íslenskrar tungu verður seint ofmetið. Sömu sögu má segja um ljóð hans og skrif um mikilvægi Þingvalla sem sögustaðar og sameiningartákns. Skrif hans áttu þátt í að móta viðhorf þjóðarinnar til Þingvalla. Þannig voru Þingvellir og saga staðarins innblástur fyrir skrif Jónasar og verk hans aftur innblástur þjóðar til verndun staðarins. Fyrst sem þjóðgarður en síðar sem heimsminjastaður UNESCO sem mikilvægar mennningarminjar árið 2004.
Því það er ekki bara lítt breytt menningarlandslag þar sem fornt norrænt þing var haldið sem skiptir máli, heldur einnig menningarleg tengsl og stolt þjóðarinnar af staðnum. Skrif Jónasar og Fjölnismanna áttu sinn þátt í að ýta undir áhuga og forvitni á Þingvöllum. Ljóðin Skjaldbreiður og Ísland og fleiri greiptust inn í hug landsmanna og eru enn í dag notuð í fræðsluferðum á Þingvöllum. Fanga línur Jónasar sögu staðarins, eins og „...nú er Snorrabúð stekkur“, en ekki síður náttúru Þingvalla samanber:
Vötnin öll, er áður féllu
undan hárri fjallaþröng,
skelfast, dimmri hulin hellu,
hrekjast fram um undirgöng;
öll þau hverfa að einu lóni,
elda þar sem flóði sleit.
Djúpið mæta, mest á Fróni,
myndast á í breiðri sveit.
Þessar átta ljóðlínur lýsa á einna besta hátt vatnabúskap Þingvallavatns og hversu oft djúpt þarf að bora í dag eftir fersku drykkjarvatni.
Hér hvíla skáldin tvö Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson
Þingvellir
Áhugi og forvitni leiddi til tíðra heimsókna til Þingvalla og voru frægir Þingvallafundir haldnir á þarsíðustu og síðustu öld. Vilji varð til að afla frekari þekkingu á mikilvægi sögu staðarins og menningu sem síðar varð til þess að vilji Alþingis stóð til að stofna hér þjóðgarð.
Það er um margt táknrænt að gröf Jónasr Hallgrímssonar er merkt í þjóðargrafreit á Þingvöllum, á fáum stöðum er hægt að ná jafnvel utan um þjóðgarðinn. Þaðan sést yfir þing- og heimsminjastaðinn sem og alla leið til Skjaldbreiðar.
Verk Jónasar má nálgast á https://jonashallgrimsson.is/
Frekari upplýsingar um UNESCO má nálgast hér
https://www.unesco.org/en