Flóra í blóma

Eftir góðan og sólríkan maí mánuð hefur gróður í gjám og almennt í þjóðgarðinum tekið vel við sér.

Blágresi (Geranium sylvaticum)

Það má segja að blágresið sé einkennisblóm Þingvalla. 

Blágresi er algeng jurtategund og þrífst vel í skóglendi sem og fleiri stöðum. Líklega hefur það verið nýtt verið talsvert til litunar hér áður fyrr þó ekki hafi náðst úr því blár litur. Þannig rekur Guðrún Bjarnadóttir í bók sinni Grasnytjar á Íslandi, þjóðtrú og saga að blágresi hafi verið nýtt til að ná svörtum lit.

Burnirót (Rhodiola rosea) og klóelfting (Equisetum arvense)

Burnirót í hafi klóelftingar.

Burnirót (Rhodiola rosea)

Burnirótin er í miklum blóma á Þingvöllum. Fyrri tíma nýting á henni nær til að fá grænan eða gulan lit í jurtalitun. Þá þótti hún góð lækningajurt gegn ýmsum kvillum. 

Þrílaufungur

Ýmsir laufungar sjást í gjám Þingvalla.

Þrílaufungur (Gymnocarpium dryopteris)

Þrílaufungur er algeng jurt og vex nokkuð víða á Þingvöllum. Þekkist þrílaufungurinn frá öðrum burknum á áberandi þrískiptingu blöðkunnar.