Heimsminjasáttmálinn 50 ára

Fimmtíu ár eru nú liðin frá því að  ráðstefna Sameinuðu þjóðanna, haldin í Stokkhólmi, samþykkti ályktun um að  „það skaðar arfleifð allra þjóða heims ef einhver hluti hinnar menningarlegu eða náttúrulegu arfleifðar spillist eða hverfur“.


Sama ár á þingi Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) var gerður samningur um verndun menningar- og náttúruminja heimsins. Hvatinn að því var ákall um að bjarga Abu Simbel (Egyptalandi), Feneyjum (Ítalíu), Moenjodaro (Pakistan) og Borobodur (Indónesíu). Heimsminjaskrá UNESCO varð þar með til.

Surtsey

Surtsey er einn af þremur heimsminjastöðum á Íslandi.

Fjöldi heimsminja

Með Heimsminjaskránni koma ríki jarðar sér saman um að deila ábyrgðinni á því að vernda helstu menningar- og náttúruminjar á jörðinni. Sammælst er um að ákveðnir staðir  hafi sérstakt alþjóðlegt gildi og eigi sem slíkir að tilheyra sameiginlegri arfleifð mannkynsins. Aðildarríkin sem standa að samningnum sameinast í því verkefni að bera kennsl á og varðveita merkilegustu náttúru- og menningarminjar í heiminum.

Samningurinn er einstakur að því leyti að í honum er friðun menningar- og náttúruminja tengd saman í einu skjali.  Til þess að fá samþykki á heimsminjaskrá þarf viðkomandi staður að vera einstakur í heiminum og þurfa umsóknir að færa skýr rök fyrir hvað gerir viðkomandi stað einstakan.   Einnig þarf afmörkun hans þarf að vera skýr af hálfu viðkomandi ríkisstjórnar og full sátt þarf að ríkja um verndun, umsjón og rekstrarfyrirkomulag. 

Á fimmtíu ára afmæli heimsminjasamningsins árið  2022 eru 1154 minjar á heimsminjaskrá. Þar af eru 897 menningarminjar, 218 náttúruminjar og 39 minjar sem eru blandaðar þar sem menning og náttúra mynda kjarnann að skráningu.  Ísland gerðist aðili að heimsminjasáttmálanum árið 1995 og eru Þingvellir, Vatnajökulsþjóðgarður og Surtsey á heimsminjaskrá. 

Heimsminjar um heim allan

Í dag eru 1154 minjar á heimsminjaskrá UNESCO. Þar af eru 897 menningarminjar (gular), 218 náttúruminjar (grænar) og 39 minjar blandaðar (gult og grænt). 

Skjáskot var tekið af gagnvirku korti UNESCO

Þróun og gagnrýni

Mikilvægt er að hlúa að grunnhugtökum heimsminjasamningsins um leið og tekist er á við áskoranir um stjórnun og nýtingu svæða sem eru á heimsminjaskrá.  Það er þekkt að skráning á heimsminjaskrá er eftirsótt þar sem slík tilnefning færir svæðum athygli en um leið skapast sú ábyrgð að stjórna svæðum á þann hátt að ekki rýrist þau gildi sem skráningin tekur til.  Á þeim fimmtíu árum sem liðin eru síðan heimsminjasamningurinn var fyrst samþykktur hefur orðið talsverð þróun í notkun hans. Í dag er aukin áhersla lögð á stjórnun staða og að framtíðarsýn í stefnu, stjórnun og verndunaráætlun liggi fyrir við mat á umsóknum.  Með því er reynt að tryggja að hin einstöku gildi staða og svæða rýrist ekki til framtíðar.  

Á síðustu áratugum hefur einnig komið fram gagnrýni á vinnu við heimsminjar.  Það er meðal annars vegna misjafnrar dreifingar heimsminja milli þróaðra og vanþróaðra ríkja en stærri hluti heimsminja er að finna í þeim ríkjum sem teljast til þróaðri landa.  Einnig hefur misskipting á milli menningar og náttúruminja verið augljós en meirihluti heimsminja eru menningarminjar.  Fundir heimsminjaráðsins þar sem umsóknir eru samþykktar hafa einnig orðið tilefni til umræðu um hve mikið er fylgt eftir umsögnum fagaðila um mismunandi umsóknir.

Vatnajökulsþjóðgarður

Stærsti þjóðgarður Íslands er Vatnajökulsþjóðgarður sem var samþykktur inn á heimsminjaskránna 2019. 

Áskoranir framundan

Þegar horft er til næstu áratuga í síkvikum heimi er ljóst að margvíslegar áskoranir blasa við heimsminjum og þeim sem fara með stjórn slíkra svæða.  Á öllum svæðum heimsins koma fram áhrif hlýnandi loftslags  hvort sem það eru í hækkandi sjávarstöðu, breytingu á vistkerfi og náttúrufari með tilheyrandi áhrifum á samfélög manna og dýra.  Átök og styrjaldir hafa bein áhrif á menninga- og náttúruminjar.

Alþekkt er í styrjaldarátökum að minjar eru meðvitað eyðilagðar til að skaða sjálfsmynd þjóða eða þjóðfélagshópa og hefur Evrópa verið minnt á það á þessu ári með blóðugri innrás Rússlands í Úkraínu þar sem ítrekað hefur verið beitt slíkum hernaði.   Breytingar á landnotkun t.d. vegna mannfjöldaþróunar, borgvæðingar, orkuskipta eða annarra ytri aðstæðna verða sífellt umsvifameiri.  Eftirspurn eftir meiri orku er alþjóðleg og víða eru mikil álitaefni sem tengjast orkuöflun og heimsminjum.  Aukin ferðaþjónusta og fjölgun ferðamanna er víða flókið úrlausnarefni á heimsminjasvæðum þótt að það sé ekki einhlítt að allar heimsminjar séu undirlagðar af óheftri ferðaþjónustu. 

Rjukan - Notodden

Rjukan - Notodden í Noregi er á heimsminjaskrá fyrir menningarminjar sem þar er að finna og tengist upphafi iðnvæðingar í Noregi. Ráðstefna norrænu heimsminjasamtakanna var haldin þar á þessu ári í september. 

Samvinna og ábyrgð

Mikil og aukin samvinna er milli heimsminjastaða á heimsvísu til að bæta þekkingu og skilning og vinna sameiginlega að framgangi heimsminjasamningsins á mismunandi svæðum.  Árið 2016 voru stofnuð samtök norrænna heimsminjastaða við hátíðlega athöfn á  Þingvöllum á árlegri ráðstefnu samtakanna.  Hefur starf samtakanna tengt saman ólíka heimsminjar á Norðurlöndunum en á næsta ári verður árleg ráðstefna samtakanna haldin á Kirkjubæjarklaustri með Vatnajökulsþjóðgarð sem gestgjafa. 

Með heimsminjasamningnum bera yfirvöld og stjórnendur svæða ábyrgð fyrir hönd alls mannkyns en ekki eingöngu svæða eða þjóðríkja og því er mikilvægt að halda á lofti helstu gildum heimsminjasáttmálans á afmælisári hans.