Arnarnes
Arnarnes var sumarbústaður undir Arnarfelli. Bústaðurinn var sumardvalarstaður Matthíasar Einarssonar læknis (landeiganda Arnarfells) og fjölskyldu hans, sem hafðist þar við á 5. áratug síðustu aldar. Bústaðurinn – sem var rifinn skömmu fyrir seinustu aldamót – stóð skammt suðvestan Arnarfells, neðan vegslóðans sem liggur um Klif vestur um Sláttulág yfir að Arnarfellsbænum. Milli vegarins og bústaðarins er trjálundur sem afkomendur Matthíasar gróðursettu. Ferhyrndur matjurtagarður var reistur 20 metrum suðaustan Arnarness og sjást leifar hans vel.

Loftmynd af Arnarnesi frá apríl 2023.
Gunnar Grímsson / Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Arnarnes í frumheimildum
Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti, síðar bóndi á Gjábakka og Mjóanesi, segir svo í örnefnaskrá Arnarfells frá 1982:
„Norðan við [Sláttulág] er ónefndur móbergsmúli. Norðvestan í múlanum stendur bærinn Arnarfell og túnkragi umhverfis. Þar myndast slakki upp í múlann. Á múlahorninu fremst er sumarbústaður byggður 1941 og gefinn Matthíasi Einarssyni lækni, sem þá var ábúandi jarðarinnar. Gefendur voru amerískir læknar, sem störfuðu með honum á Landakoti. Bústaðurinn heitir Arnarnes (11).“